Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:29:45 (8173)

2001-05-18 18:29:45# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að þessi ríkisstjórn hefur ekki staðið vörð um verðstöðugleikann og möguleika fólks til að fjármagna húsnæðiskaup til að koma þaki yfir höfuðið á sér og sínum. Þá skulum við ekki gleyma því heldur að við bjuggum við annað og stærra kerfi en húsbréfakerfið vegna þess að við bjuggum jafnframt við félagslegar lausnir í húsnæðismálum. Með þeirri breytingu sem gerð var á húsnæðiskerfinu, með lagabreytingu 1998 sem tók gildi í ársbyrjun 1999, ef ég man rétt, er stoðunum í reynd kippt undan húsnæðiskerfinu. Engan veginn er séð fyrir endann á því hvernig það mál mun fara. Það er ein skýringin á því að það fjölgar í þeim hópi sem annars vegar leitar út á rándýran húsaleigumarkaðinn og hins vegar inn til okurlánaranna, inn til þeirra stofnana sem veita lán á þessum okurkjörum. En mér finnst áhyggjuefni hvert viljaleysið er til að grípa til einhverra raunhæfra ráðstafana og taka á þessum háu vöxtum. Út á það hefur gagnrýni okkar gengið í stjórnarandstöðunni og stöndum við þar einhuga saman að við höfum viljað taka á þessum málum á ábyrgari hátt en gert er í þessu frv. þótt okkur finnist margt í frv. þess virði að styðja það.