Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:31:42 (8174)

2001-05-18 18:31:42# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það var ekki meining mín að teygja neitt á þessari umræðu en mér finnst ekki hægt að ljúka henni án þess að vekja athygli á því sem fram kom hjá hæstv. viðskrh. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég er nokkuð slegin yfir því vegna þess að það kom mjög skýrt fram hjá hæstv. viðskrh. að hún væri mótfallin því að hér yrðu lögfestar reglur um ábyrgðarmenn og ábyrgðartryggingu. Þetta er mál sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur flutt fjórum sinnum og fjallar um ábyrgðarmenn og að settar séu skynsamlegar reglur sem gilda eiga um ábyrgðarmenn og fjárskuldbindingar og samskipti kröfuhafa og ábyrgðarmanna sem eru mjög mikilvægt. Við þekkjum það og hefur verið margfarið yfir það í umræðu í vetur og á undanförnum árum hvað mörg sorgleg dæmi finnast vegna ábyrgðarskuldbindinga í lánakerfinu og hvernig þessar reglur sem við búum við varðandi ábyrgðarmennina hafa leitt til þess að fjöldi einstaklinga hefur misst íbúðarhúsnæði sitt og við þekkjum þar mörg sorgleg dæmi. Hér var verið að reyna að finna leið til þess að draga úr skakkaföllum sem ábyrgðarmenn lenda í.

Ég hélt satt að segja, herra forseti, að ákveðin samstaða væri að skapast í þinginu um að setja slíkar reglur vegna þess að það er nauðsynlegt. Sagt er að á 60--80% heimila megi finna einstaklinga 18 ára og eldri sem eru í persónulegri ábyrgð vegna fjárskuldbindinga. Allt of margir þeirra hafa lent í verulegum fjárhagserfiðleikum vegna þess að þeir hafa skrifað upp á lánveitingar eða ábyrgð fyrir annan aðila. Þess vegna töldu menn brýnt að finna skynsamlegar leikreglur í þessu efni en nú virðist svo að hæstv. viðskrh. hafi hreinlega slegið málið út af borðinu með því að segja að hún væri mótfallin slíkri lagasetningu og vill bara semja við bankakerfið um einhverjar leikreglur í þessu sambandi.

Þetta minnir mig, herra forseti, á það þegar framsóknarmenn töluðu mjög fyrir því fyrir kosningar 1995 að hér þyrfti að setja lög um greiðsluaðlögun fyrir skuldugustu heimilin. Það var leið sem var farin í Noregi með mjög góðum árangri fyrir heimili sem höfðu lent í verulegum greiðsluerfiðleikum og engin leið var til þessa að bjarga nema með greiðsluaðlögun og Norðmenn settu lög þar um. En um leið og framsóknarmenn komust í ríkisstjórn gleymdu þeir þessu máli og vildu bara fara í það að semja við bankakerfið um leiðir fyrir skuldug heimili og þau sem væru í miklum erfiðleikum --- með hvaða árangri, herra forseti? Ég hef ekki séð neinn árangur af því. Nú vilja framsóknarmenn með viðskrh. í broddi fylkingar greinilega slá út af borðinu þetta þýðingarmikla mál um ábyrgðarmenn. Ég lýsi allri ábyrgð á hendur hæstv. viðskrh. með þeirri yfirlýsingu sem hér kemur fram. Það eru mjög margir og mörg heimili sem bundu vonir við að þetta frv. yrði að lögum. Þetta hefur verið töluvert í umræðunni.

Herra forseti. Það skulu vera lokaorð mín að ég er mjög hrygg yfir því að svo skuli fara með þetta mál að ráðherrann skuli svona rækilega í lok þessa þings slá málið út af borðinu. En auðvitað munum við í Samfylkingunni og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, ef ég þekki hann rétt, flytja þetta mál aftur og aftur þangað til það verður gert að lögum og sennilega sýnist mér að málið sé þannig vaxið að það verði ekki að lögum fyrr en Samfylkingin getur haft hönd í bagga með stjórnun landsins.