Opinber innkaup

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:58:37 (8179)

2001-05-18 18:58:37# 126. lþ. 128.14 fundur 670. mál: #A opinber innkaup# (heildarlög, EES-reglur) frv. 94/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér ræðum við frv. til laga um opinber innkaup sem er nátengt öðru frv. sem einnig er á dagskrá þessa þingfundar, frv. til laga um skipan opinberra framkvæmda. Þessi lög ganga út á að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri. Á þá leið segir um tilgang laganna í 1. gr.

Nú gilda um þetta ákveðnar reglur, lög og reglur. Við höfum auk þess undirgengist skilmála Evrópusambandsins eða EES-samkomulagsins. Þannig er opinberum aðilum skylt að bjóða út verklegar framkvæmdir og opinber innkaup yfir tilteknu marki. Í raun er ekkert nema gott um það að segja að fella þau lög og þær reglur sem um þetta eiga að gilda inn í lagabálk eins og hér er verið að gera. Það er góðra gjalda vert.

Við hefðum hins vegar kosið að þessu máli yrði skotið á frest og það geymt til haustsins og færum fyrir því rök í áliti minni hlutans sem við skrifum undir, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og sá sem hér stendur. Við færum rök fyrir okkar máli í sex liðum.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði ítarlega grein fyrir röksemdum okkar og hvers vegna við teljum eðlilegt að vísa málinu aftur til ríkisstjórnar og gefa síðan efh.- og viðskn. þingsins betri tíma til þess að gaumgæfa málið. Hvers vegna? Vegna þess að við teljum margt ámælisvert í þessu frv.? Ég tel að þannig væri of djúpt í árinni tekið. Það er einvörðungu vegna þess að við teljum þarna vera ýmis álitamál á ferðinni. Misvísandi upplýsingar komu frá umsagnaraðilum og ýmsir umsagnaraðilar óskuðu eftir frekari fresti til þess að fara í saumana á þessum málum. Ég vil leggja áherslu á þá skoðun mína að einnig beri að skoða þetta frv. í ljósi annarra skuldbindinga. Þá vísa ég í alþjóðlegar skuldbindingar sem við erum að undirgangast. Ég ætla að rökstyðja hvað ég á við með þessu.

[19:00]

Í þessu frv. er rækilega skilgreint til hvaða þátta lögin eiga að taka. Vísað er í 4. gr. frv. til vörusamninga og til þjónustusamninga og þar staðnæmist ég ögn. Að sönnu eru undanskildir ákveðnir samningar þar, vöru-, þjónustu- eða verksamningar í nokkrum liðum, og ég ætla að lesa þá upp, með leyfi forseta:

,,a. Samningar um kaup eða leigu á landi, byggingum, sem þegar eru til, eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir þeim að undanskildum samningum um fjármálaþjónustu sem gerðir eru fyrir, eftir eða samhliða samningi um kaup eða leigu á fasteign;

b. Samningar um kaup, þróun og framleiðslu á dagskrárefni fyrir útvarp og sjónvarp eða samningar um útsendingartíma;

c. Samningar um talsíma, telex, þráðlausa síma, boðkerfi og gervihnattaþjónustu;

d. Samningar um gerðardóma og sáttameðferðir;

e. Samningar um fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum gögnum og þjónustu seðlabanka;

f. Vinnusamningar;

g. Samningar um rannsókn og þróun á þjónustu, að frátöldum samningum, þar sem kaupendur skv. 3. gr. bera allan kostnað af þjónustunni og hafa einkarétt á að njóta góðs af árangrinum í starfsemi sinni.

Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. getur ráðherra ákveðið að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hagi innkaupum sínum samkvæmt lögum þessum einnig við gerð þeirra samninga sem þar greinir. Ráðherra getur einnig ákveðið að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki geri sérleyfissamninga einungis að undangengnu útboði sem hann setur nánari reglur um.

Ef opinber samningur nær bæði til kaupa á vöru og þjónustu telst hann samningur um þjónustu ef sá þáttur samningsins, sem lýtur að þjónustu, nemur hærri fjárhæð en vöruþátturinn.``

Ég staðnæmist ögn við þennan þjónustuþátt frv. og vísa núna í 59.--60. gr. en þar er tekið á opinberum innkaupum á Evrópska efnahagssvæðinu en þessi þáttur er hluti þessara laga. Í 59. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Eins snemma á fjárhagsárinu og unnt er skulu kaupendur birta áætluð heildarinnkaup á vörum, þjónustu eða verkum, sem greinir í I. viðauka A, fyrir næstu tólf mánuði, ef heildarfjárhæð kaupanna nær viðmiðunarfjárhæðum vegna heildarinnkaupa, sem birtar eru í reglugerð ráðherra skv. 1. mgr. 56. gr.``

60. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Kaupandi, sem hyggst bjóða út opinber innkaup yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum, sem ráðherra birtir í reglugerð skv. 56. gr., skal tilkynna þá fyrirætlun sína. Sama á við þegar um hönnunarsamkeppni er að ræða og gerð sérleyfissamninga um verk. Fyrirhuguð innkaup á þjónustu, sem greinir í I. viðauka B, þarf þó ekki að tilkynna.``

Og hver skyldu vera þau verkefni sem greinir frá í I. viðauka B? Hann er að finna á bls. 28 í frv. Þar er vísað til hótel- og veitingaþjónustu, flutninga á sjó- eða vatnaleiðum, járnbrautaflutninga o.s.frv. Fleiri þættir eru taldir upp. En þar er líka vísað til kennslu og starfsmenntunarþjónustu. Þar er vísað til heilbrigðis- og félagsmálaþjónustu. Þar er vísað til tómstunda-, menningar-, íþróttaþjónustu og annarrar þjónustu. Þessir þættir eru undanskildir ströngustu ákvæðum laganna með tilvísun í viðauka frá frá EES.

Þegar við samþykkjum lög sem eiga að vera algild, eiga að skapa almennar reglur fyrir skipulagningu á þjónustu á vegum hins opinbera skiptir miklu máli hverjar undantekningarnar eru og á hvern hátt þær eru tryggðar. Hér er ég að segja að heilbrigðisþjónusta, kennsla og aðrir þættir eru undanþegnir þessum útboðsgildum með tilvísun í EES-samninginn og í tilskipanir hins Evrópska efnahagssvæðis, Evrópusambandsins. Ég spyr: Ef þessum ákvæðum er breytt hvaða áhrif kæmi það til með að hafa á lagagerð okkar?

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að nú fara fram í heiminum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem er skammstöfuð WTO, World Trade Organisation, samningar sem lúta einmitt að þessu, þ.e. þjónustustarfsemi á vegum opinberra aðila. Þessir samningar eiga sér langa forsögu en eins og menn e.t.v. þekkja hefur verið unnið að því allt frá því 1947 að stuðla að samræmdu kerfi í heimsviðskiptum. Það hefur verið unnið að þessu á ýmsum vígstöðvum. Árið 1947 var búinn til á vegum Sameinuðu þjóðanna sáttmáli sem ný stofnun, Fjölþjóðaviðskiptastofnunin, International Trade Organisation, ITO, átti að hvíla á. Þessi sáttmáli hlaut ekki samþykki nægilega margra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til að verða að veruleika. En á grundvelli þessa sáttmála var GATT sett á lagginar. GATT er skammstöfun á ensku fyrir General Agreement on Trade and Tariffs og hefur verið þýtt á íslensku sem samkomulag um verslun og viðskipti. Hér er bæði skírskotað til samkomulagsins og þeirrar stofnunar sem hefur haft það hlutverk að framfylgja samkomulaginu og þróa það áfram. GATT tók á sínar herðar það hlutverk sem ITO hafði verið ætlað. Undir GATT-regnhlífinni og með tilkomu Fríverslunarbandalags Evrópu, Ameríku og Asíu jókst alþjóðaverslun hraðstiga á seinni hluta 20. aldarinnar.

Þegar kalda stríðinu lauk með hruni austurblokkarinnar varð skriðið á þessari þróun enn meira og á tímabilinu sem í hönd fór var nýfrjálshyggjan enn þá meira afgerandi en fram að þessum tíma og í raun ráðandi stefna á Vesturlöndum og virtist litlu gilda hverju nafni ríkisstjórnir kenndu sig, hvort það var við hægri stefnu eða vinstri stefnu. Nánast hvergi var fyrirstaða fyrir bylgju aukinnar markaðsvæðingar.

Á vegum GATT var efnt til umfangsmikilla viðræðna um markaðsvæðingu heimsviðskipta með reglubundnum hætti og í kjölfar slíkra viðræðna og samkomulags árið 1995 var heimsviðskiptastofnunin World Trade Organisation, WTO, sett á laggirnar. Hún leysti GATT af hólmi. Báðar þessar stofnanir, fyrst GATT og síðan WTO, einhentu sér í upphafi á vöruverslun, að draga úr tollum og hvers kyns hömlum á viðskipti með vörur. Verslun með vörur er áþreifanleg og tiltölulega auðveld viðfangs gagnstætt verslun með þjónustu.

Þá er einnig á það að líta að verslun með þjónustu hefur verið lítil þar til fram á síðasta áratug en þá tók hún líka mikinn kipp og er í mjög örum vexti. Nú er svo komið að alþjóðaviðskipti með þjónustu nema fjórðungi af verðmæti vöruviðskipta í heiminum á árinu 1999 og sums staðar er þetta allmiklu hærra.

Það gerist síðan að reynt er að útvíkka þetta GATT-fyrirkomulag, sem náði til vöruviðskipta, til þjónustunnar einnig. Grunnurinn að GATS sem svo er nefnt, samkomulagi um verslun og þjónustu, General Agreement on Trade and Services, var lagður árið 1994, en Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, arftaki GATT, sem hefur með verkefnið að gera, var stofnuð formlega í janúar árið 1995. GATT-samkomulagið er í þróun en það er fyrsta samkomulag á heimsvísu sem tekur til viðskipta með þjónustu. Þegar hafa verið gerðar tilraunir í þessa veru og vegur þar þyngst svokallaður maígrunnur, fjölþjóðasamningur um fjárfestingar, Multilateral Agreement on Investment, en sú tilraun sem var gerð á vegum OECD, Efnahags- og þróunarstofnunarinnar, sætti mikilli gagnrýni, einkum af hálfu verkalýðshreyfingar, en einnig andæfðu ýmsir sem vildu standa vörð um menningu sína. Vísa ég þar t.d. í andstöðu Frakka við maísamkomulagið, en þar var t.d. andæft af hörku af hálfu kvikmyndaiðnaðar í Frakklandi vegna þess að talsmenn hans sögðu að næði þetta samkomulag fram að ganga, sem byggði á því að ekki mætti mismuna milli fjárfesta, þá væri Frökkum bannað í reynd að styðja franskan kvikmyndaiðnað gagnvart bandarískum fyrirtækjum, svo dæmi sé tekið, sem kynnu að setja sig niður í Frakklandi og heimta þá samsvarandi fyrirgreiðslu. Þetta er dæmi um andstöðuna gegn maísamningnum en síðan voru ýmsir sem andæfðu þessu á þeim grundvelli að þarna væri kominn grunnurinn að aukinni einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar. Það var því lagt til hliðar um stundarsakir.

Hins vegar hefur þetta verið sett nýlega upp á borðið aftur af hálfu OECD og væri fróðlegt að heyra einhvern tíma frásagnir íslenskra fulltrúa af OECD-fundum hvað þetta snertir. Við fengum fréttatilkynningu frá fjmrn., í gær held ég að það hafi verið, þar sem segir frá fundi sem hæstv. fjmrh. sat á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, í París þar sem m.a. var fjallað um þá samninga sem ég hef verið að vísa í hér. Segir í fréttatilkynningunni, með leyfi forseta:

,,Á fundinum var fjallað um stöðu og horfur í efnahagsmálum, m.a. í ljósi ábyrgðar hins nýja hagkerfis. Rætt var um horfur í alþjóðaviðskiptum og líkur á nýrri lotu um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO.``

Síðan heldur áfram og segir frá því að þetta hafi verið sameiginlegur fundur fjmrh. og umhvrh.

Hvers vegna er ég að gera svona mikið úr þessum málum? Jú, þeir samningar sem hér er vísað í, sem hæstv. fjmrh. var að ræða fyrir okkar hönd í París undanfarna daga, taka á þeim þáttum sem vísað er til í þessu frv. Á vegum heimsviðskiptastofnunarinnar, á vegum GATS, er núna unnið að því að samræma reglugerðarverk fyrir útboð á opinberri þjónustu svo að hörð átök eru um skilgreiningar í þessu efni. Sú skoðun hefur orðið ofan á um stundasakir að reynt verði að skapa almennar reglur, reynt að ná sátt um almennar reglur sem gildi nema einstök ríki segi sig frá þeim, geri fyrirvara fyrir sitt leyti. Ef þessir fyrirvarar eru ekki ríkjandi, ef þessir fyrirvarar eru ekki gerðir af hálfu viðkomandi ríkja taki samningurinn til þeirra. Samningunum er ætlað að taka á opinberri þjónustu og hugsanlega einnig því sem við flokkum undir velferðarþjónustu. Engar niðurstöður liggja fyrir í þessu efni og mjög hörð átök eru um þetta. Reyndar er málið heldur flóknara en ég lýsi hér því að að hluta til er það svo að ríki þurfa í tilteknum atvikum að óska eftir aðild að þeim reglum sem kann að vera samið um þannig að það virkar á báða vegu. Í sumum tilvikum þurfa ríkin að segja sig frá reglugerðarverki, í öðru tilviki að segja sig inn í það ef svo klúðurslega má að orði komast.

Við erum að semja almennar reglur, setja almenna löggjöf sem byggir á undantekningarákvæðum fyrir velferðarþjónustuna sem eiga stoð í reglugerðarverki Evrópusambandsins. Hvað gerist þegar þeim stoðum er breytt? Það er m.a. þetta sem ég hef viljað fá ráðrúm til að skoða og er ég þar ekki endilega að lýsa andstöðu við allt sem er í frv., síður en svo. En ég er að hvetja til þess að þessi mál séu skoðuð heildstætt því að þegar allt kemur til alls er verið að raða upp púsluspili, púsluspili reglugerða og laga og alþjóðlegra skuldbindinga sem við erum að undirgangast.

Eitt áhyggjuefni sem er ástæða til að leggja áherslu á, ekki bara hér á landi heldur á þetta við um flest ríki, held ég, er að þessar viðræður á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa um of verið á bak við tjöldin. Þær hafa ekki verið opinberar. Fólk veit ekki hvað er að gerast. Ég minnist þess að þegar þingnefnd EFTA, elsta alþjóðanefndin okkar á Alþingi, fékk fyrirlestur frá fulltrúa Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á fundi í Brussel ekki alls fyrir löngu var þar talað mjög í véfréttastíl um hvað verið væri að véla. Þetta er óljóst og mikilvægt að fá upplýsingar um þetta. Þess vegna fyndist mér eðlilegt að hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þeim viðræðum sem hann hefur átt á þessum vettvangi.

Mér fyndist alveg koma til greina og ekkert óeðlilegt að fjmrh. væri með svipaðar skýrslugerðir og hæstv. utanrrh. um utanríkismálin um afskipti okkar og aðkomu að alþjóðlegu samningsverki eins og þessu. Mér fyndist það eðlilegt og til góðs. Þetta er áhyggjuefni mitt.

En er raunverulega ástæða til að hafa af því áhyggjur að við séum að feta okkur út á þá braut að fara með almannaþjónustuna, velferðarþjónustuna, út á markað? Í því sambandi langar mig til að lesa úr umsögn, hún er örstutt, umsögn Þjóðhagsstofnunar um þetta frv. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á síðustu árum hefur það svið sem verk eru boðin út á farið stækkandi og Þjóðhagsstofnun telur að í framtíðinni verði framhald á þessari þróun. Má nefna þjónustu á sviði menntamála, ummönnunar og ýmissar ráðgjafar. Afmarkaðir þættir slíkrar þjónustu geta fallið vel að útboðsfyrirkomulagi ef fyrir liggur pólitísk stefnumörkun í þá veru og mótað hefur verið eðlilegt starfsumhverfi. Í því efni er einkar mikilvægt að í gildi sé almenn lagasetning sem tryggir faglega meðferð við ákvarðanatöku. Frá sjónarhóli þjóðarhags má með þessu móti ná bættri nýtingu fjármuna en að sjálfsögðu aukast að sama skapi þær kröfur sem gera verður til þeirra sem um tilboð fjalla að meta efnislegt innihald þeirra út frá fleiri sjónarmiðum en verðinu einu.``

Undir þetta síðasta vil ég taka. Það er alveg rétt.

Ég tek líka undir það að ef menn fara út á þessa braut er æskilegt og bráðnauðsynlegt að hafa ákveðnar og skýrar reglur sem tryggja jafnræði og sem tryggja líka að tilboð séu metin á víðtækari hátt en út frá verðinu einu eins og segir í umsögn Þjóðhagsstofnunar. Hitt finnst mér óhugnanlegt að Þjóðhagsstofnun taki það sem gefinn hlut að hér verði farið út á þessa braut. Ég finn ekki betur en hér sé velþóknun af hálfu Þjóðhagsstofnunar á því að einkavæða og markaðsvæða velferðarþjónustuna. Mér finnst það sæta mikilli furðu að stofnunin skuli taka þennan pólitíska pól í hæðina.

Allt fellur þetta inn í það samhengi sem ég hef verið að lýsa vegna þess að þessir þættir allir, þetta lagaumhverfi er allt í mjög örri þróun og byggir á samspili lagasetningar í einstökum þjóðríkjum. Það byggist á fjölþjóðlegum og alþjóðlegum skuldbindingum sem við undirgöngumst. Við verðum að gefa okkur góðan tíma til að gaumgæfa þetta samhengi hlutanna.

Eitt atriði sem mig langar til að nefna er brtt. við 11. gr. frv. Reyndar ætla ég að skjóta öðru atriði að áður en ég kem að því, áður en ég hverf algerlega frá Þjóðhagsstofnun sem rekur í umsögn sinni á hvern hátt beinar framkvæmdir á vegum ríkisvaldsins hafi dregist saman, menn hafi ráðist í útboð. Síðan er klykkt út í þessum kafla umsagnarinnar á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

[19:15]

,,Með þessu móti hefur ríkisvaldið sparað sér umtalsverða fjármuni en jafnframt hafa einstaklingum skapast tækifæri til arðbærs atvinnurekstrar.``

Ég efast ekki um að þetta eigi við rök að styðjast í mörgum tilvikum og því fer fjarri að mér finnist óeðlilegt að bjóða verk út. Mér finnst það oft vera æskilegt og eðlilegt þótt ég vilji ekki skapa eða samþykkja lög sem þvinga okkur í þessum efnum. Ég vil að við höfum valfrelsi sjálf. Ef við viljum setja okkar varðskip saman á Akureyri þá gerum við það. Ef við hins vegar kjósum að bjóða það út þá gerum við það. Þetta er þá bara okkar ákvörðun.

Varðandi þá staðhæfingu Þjóðhagsstofnunar að þetta hafi alltaf leitt til góðs, vísa ég á mjög athyglisverða frétt sem birtist í morgun á baksíðu Morgunblaðsins þar sem greint er frá svörum við spurningum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson setti fram um kostnað ríkissjóðs við flutning ýmissa ríkisstofnana og fyrirtækja og aðlögun þeirra í nýbyggingu einkaaðila í Borgartúni 21. Þar kemur fram að þessi kostnaður nam alls 313 millj.

,,Um er að ræða húsnæði sem leigt hefur verið til 20 ára og munu leigugreiðslur á samningstímabilinu ekki verða undir 2,4 milljörðum kr., en leigufjárhæðin er bundin vísitölu neysluverðs. ... Húsnæðið var afhent til notkunar á tímabilinu febrúar til maí 2000. Öllum leigusamningum lýkur hins vegar 31. janúar 2020.``

Þessi samningur sem kostar 2,4 milljarða skilur ríkið eftir án þess að fá þarna nokkurn eignarhlut. Maður hlýtur að velta fyrir sér hagkvæmni þessa fyrir stofnun t.d. eins og Íbúðalánasjóð, áður Húsnæðisstofnun, sem var í eigin húsnæði og hafði ekki mikinn kostnað af því eftir því sem ég best veit og er gert að flytja inn í þetta ágæta húsnæði en með ærnum tilkostnaði. Ofan á þetta má nefna að ríkið greiddi verktaka hússins um 197 millj. í viðbótarkostnað vegna aðlögunar á þörfum einstakra stofnana og fyrirtækja. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki farið í saumana á þessu máli en þessi frétt vekur mikla athygli og svörin sem veitt eru við spurningum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar eru athyglisverð og gefa tilefni til að ætla að þessi staðhæfing Þjóðhagsstofnunar fái ekki staðist í öllum tilvikum. Síðan erum við náttúrlega með hið æpandi dæmi frá Sóltúni 2 í Reykjavík en út í þá sálma ætla ég ekki að fara núna. En þar er það sannað og staðfest að þessi einkaframkvæmd sem Þjóðhagsstofnun gumar af að sé skattborgaranum til góðs, reyndist honum dýrari en annað fyrirkomulag sem í boði var.

Þá kem ég að því sem ég vildi segja um 11. gr. frv. en gerð er tillaga um breytingar á henni af hálfu meiri hlutans. 11. gr. frv. er örstutt og á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Við opinber innkaup skal kaupandi gæta jafnræðis bjóðenda.``

Brtt. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Heimilt er samkvæmt lögum þessum að áskilja í útboðsgögnum að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á lögmætum kvöðum.``

Í álitinu frá meiri hluta efh.- og viðskn. er það skýrt hvað vakir fyrir mönnum með þessari breytingu. Það er skýrt á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Nefndin ræddi mikið um þann áskilnað frumvarpsins að óheimilt sé að gera búsetu á tilteknu svæði að skilyrði fyrir þátttöku í opinberum innkaupum, þ.e. að ekki megi mismuna bjóðendum á grundvelli búsetu þeirra eða staðsetningar. Þessi regla byggist á tilskipun Evrópubandalagsins, samanber samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Meiri hlutinn bendir á að þeir bjóðendur sem eru nær tilteknum stað geta að sjálfsögðu notið þess í útboði. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að það hlýtur að ráðast af þörfum kaupanda hverju sinni hvar á að afhenda vöru, veita þjónustu eða vinna verk og ef stofnun eða starfsemi á hennar vegum er eða á að vera staðsett úti á landi væri ekkert því til fyrirstöðu að áskilja að þar væri vara afhent, þjónusta veitt eða verk unnið. Þessu til áréttingar leggur meiri hlutinn til að við 11. gr. bætist ákvæði þess efnis að heimilt sé að áskilja í útboðsgögnum að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á lögmætum kvöðum. Þetta er í samræmi við fjölmarga dóma Evrópudómstólsins, en við mat á því hvort regla sem hindrar með einhverjum hætti að erlendir aðilar geti borið fram vöru eða þjónustu sína í öðru EES-ríki (án þess að mismuna þeim í orði kveðnu) sé andstæð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er almennt litið til þess hvort reglan styðjist við lögmætar kvaðir. Ef kröfur til bjóðanda eru ekki reistar á lögmætum kvöðum, þ.e. raunverulegum þörfum kaupanda, mætti leiða að því rök að um mismunun væri að ræða.``

Herra forseti. Ég leyfi mér að hafa miklar efasemdir um að þessar röksemdir haldi. Ástæðan fyrir því að þetta er vakið upp er, að því er ég held, sú ákvörðun að bjóða fasteignaskráninguna sem verður staðsett á Akureyri út á markaðinn en áskilja að sá sem sinnir verkefninu sé á því svæði. Er ég andvígur því? Nei, alls ekki. Er ég andvígur því að þessi vinna sé unnin og starfrækt á Akureyri? Nei, alls ekki. Ég hefði kosið að þetta verk hefði ekki verið boðið út. Mér finnst eðlilegt að þetta sé hluti af þeirri stofnun sem á að sinna þessu verkefni, en látum það vera. Það á að bjóða þetta út. Ég hef miklar efasemdir um að menn geti reist skorður af þessu tagi. Ég held að hið sama gerist og gerðist varðandi lögin um Landhelgisgæsluna, að gagnrýni komi frá ESA um að þetta standist ekki. Í meirihlutaálitinu er beinlínis sagt hvað vakir fyrir mönnum. Ég efast ekkert um að slíkt yrði notað fyrir ESA-rannsóknarréttinum ef til þess kæmi. Ég efast ekkert um það. En mér fyndist augljósust leið að fara til að tryggja að verkið sé unnið á Akureyri sem ég er fylgjandi, að hafa þetta sem hluta af þeirri stofnun sem á að starfrækja þetta verk.

Staðreyndin er sú að við undirgengumst EES-skilmálana með það fyrir augum að tryggja jafnræði á markaði og að ekki yrðu reistar óeðlilegar skorður í því efni. Út á það gengur samningurinn. Þess vegna var ég meðal annarra á móti þessum samningi. Er ég á móti útboðum? Nei. En ég er á móti því að vera þvingaður í tiltekinn farveg, að þurfa að bjóða út og gera það á tiltekinn hátt. Mér finnst þetta alltaf vera tilraun til að fá það besta af öllum heimum og þegar reglurnar ekki henta manni reynir maður einfaldlega að breyta þeim. Ástæðan fyrir því að við mörg vorum andvíg þessum samningi er m.a. sú að við erum lögþvinguð inn í þennan farveg.

Herra forseti. Undir lokin, vegna þess að ég ér að ljúka máli mínu, langar mig til að nefna eitt dæmi frá verkalýðssamtökum sem ég þekki vel til. Þau eiga sumarbústaði á Austurlandi. Svo fór að ráðast þurfti í allmiklar viðgerðarframkvæmdir við þessa bústaði. Þetta var á samdráttartímum í byrjun tíunda áratugarins. Menn stóðu frammi fyrir þremur valkostum. Í fyrsta lagi kom til greina að semja við fyrirtæki sem voru á staðnum, á Austurlandi. Í annan stað kom til greina að fá starfsmenn viðkomandi samtaka sem sinntu verkefnum af þessu tagi annars staðar á landinu til þess að fara austur á land og vinna verkið. Í þriðja lagi kom til greina kom að bjóða verkið út í landinu öllu og þá hefði það án efa gerst að fyrirtæki á suðvesturhorninu sem bjuggu við mikinn verkefnaskort hefðu alla vega reynt mikið til að komast í bitann og það gerðist iðulega að menn og fyrirtæki undirbuðu til þess að ná verkum og jafnvel vinna verk undir kostnaðarverði til þess að fá veltufjármagn inn í reksturinn. Að sönnu var ekkert gefið um það hver niðurstaðan hefði orðið en menn vildu ekki taka áhættuna í þessu efni.

Niðurstaðan varð sú að samið var við fyrirtæki á Austfjörðum um að sinna þessu verki. Var það vegna þess að menn fengu þannig lægsta verðið, hagstæðasta tilboðið í þeim skilningi? Nei. Að öllum líkindum var verðið heldur hærra. En menn ákváðu þetta á félagslegum forsendum, þ.e. að eðlilegt væri að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem viðkomandi samtök voru hvort eð er háð líka. Það voru eiginhagsmunir þarna inni. Menn vildu geta leitað til fyrirtækisins í smærri verkum og því væri eðlilegt að leita til þess fyrirtækis einnig þegar um einhver umtalsverð viðskipti væri að ræða. Þarna koma við sögu félagsleg og byggðaleg sjónarmið. Ég er því fylgjandi að við búum við lög og reglur og gerum samninga sem veita okkur frelsi af þessu tagi, sem veita okkur frelsi til athafna. Það er ekki þar með sagt að mér finnist óeðlilegt á stundum að bjóða verkin út á markaði og þess vegna í sumum tilvikum á hinu Evrópska efnahagssvæði öllu saman ef þá ekki heiminum gervöllum.