Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 20:15:25 (8189)

2001-05-18 20:15:25# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[20:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er andvíg sölu ríkisbankanna. Við teljum mikilvægt að tryggja kjölfestu í fjármálalífinu með öflugum þjóðbanka. Það spornar gegn einokun í fjármálaheiminum og stuðlar að góðri þjónustu við landsmenn alla.

Við höfum vakið athygli á því að verðgildi bankanna hefur rýrnað um 11% frá því í ársbyrjun eða um 5.000 millj. kr. Engu að síður eru þær skuldbindandi yfirlýsingar sem gefnar hafa verið nú í tengslum við þessa umræðu um að selja bankana á yfirstandandi kjörtímabili ekki góðs viti. Vísa ég þar enn og aftur í yfirlýsingar hæstv. samgrh. sem segir að ekki sé eftirsóknarvert að ná sem hæstu verði fyrir þær þjóðareignir sem verið er að setja á markað. Það vekur furðu mína að slík ummæli og slíkar yfirlýsingar hafi ekki vakið meiri athygli en raun ber vitni.