Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 21:34:00 (8201)

2001-05-18 21:34:00# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[21:34]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Í því frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs, sem hér er til umræðu, er verið að festa í sessi ýmsar gjaldtökur en jafnframt eru inni í því liðir sem fengu mig til að halda að ég sæi ofsjónir. Samkvæmt 4. gr. er verið að festa í lög flugeldaskatt. Ég trúi því ekki eiginlega þegar ég hlustaði á framsögu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., þegar hann var að fylgja þessu úr hlaði. Einnig á að lögfesta brennuskatt upp á 5 þús. kr.

Herra forseti. Á hvaða vegferð erum við í gjaldtökumálum og skattamálum? Sjálfstfl. hefur haft það fyrir venju að kalla ýmsa nýja skatta ekki skatta heldur þjónustugjöld en auðvitað eru þetta ekkert annað en skattar. Gaman væri að vita hvort hinir ýmsu aðilar sem senda ríkisvaldinu oft athugasemdir um hin og þessi atriði geri ekki athugasemdir við þá hálfgerðu skítaskatta sem hér er verið að leggja á og hvort það borgi sig yfir höfuð að vera að leggja þá á, auka vinnu og annað hjá opinberum starfsmönnum við að innheimta þetta. Ég held að það verði þá a.m.k. að skoða þetta á allt annan hátt. Eins og þetta gengur fyrir sig í dag geri ég mér grein fyrir því að vafalaust þarf að breyta ýmsum tölvukerfum og ýmsu öðru hjá ríkisvaldinu til þess að koma flugeldaskattinum á þannig að menn geti gengið til viðkomandi sýslumanna og greitt keisaranum það sem keisarans er, flugeldaskatt upp á 5 þús. kr.

Herra forseti. Ég sagði það áðan að mér finnst það mjög einkennilegt að þingmenn Sjálfstfl. skuli vera fremstir í flokki með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar við að koma með alla þessa skatta inn á hið háa Alþingi sem verið er að gera. Það er ekki bara þessi flugeldaskattur og brennuskattur. Ýmislegt annað hefur verið að gerast undanfarið og á dagskrá í kvöld eru nokkur mál sem koma frá samgn. þar sem verið er að leggja til fleiri skatta. Með öðrum orðum, fulltrúar Sjálfstfl. fylgja hér eftir í kvöld ef dagskráin gengur eftir tillögu um flugeldaskatt, tillögu um brennuskatt, tillögu um leigubílaskatt, tillögu um vörubílaskatt, tillögu um sendibílaskatt og svona mætti vafalaust áfram telja ef maður færi aðeins betur í gegnum þau frv. sem eru hér á dagskrá.

Herra forseti. Vafalaust kalla sjálfstæðismenn þetta þjónustugjöld og aðeins vegna þess að ég nefni leigubílaskattinn, vörubílaskattinn og sendibílaskattinn, sem verið er að setja á, þá kom það fram í hv. samgn. að ekki væri ætlunin að lækka neitt gjöldin hjá samgrn. vegna þessa við það að flytja þessi verkefni frá samgrn. til Vegagerðarinnar heldur er hér verið að koma með nýja skatta. Það er með ólíkindum hve menn ganga langt í þessum efnum og ég verð að segja alveg eins og er að ég held að full ástæða væri til eins og hér hefur verið rætt um þar sem vitnað er í þá þáltill. sem samþykkt var árið 1993 frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana af þessum smásköttum. Herra forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að fara í gegnum það og við gerum okkur grein fyrir því að ýmsir skattar eru svo lágir að við eigum ekki að leggja vinnu opinberra starfsmanna eða tæki og tól í að vera að innheimta þessa skatta.

Ég hef nefnt hér á skatta sem ég hef talið upp. Frægur er flugmiðaskatturinn sem lagður var á á síðasta ári. Það var athyglisvert á aðalfundi Flugleiða þegar stjórnarformaður þess fyrirtækis nefndi það og gat um það sem sérstakan póst og taldi ástæðu til að vekja m.a. athygli á opinberum álögum í sambandi við rekstrarerfiðleika Flugfélags Íslands. Flugmiðaskatturinn sem var rukkaður á síðasta ári var einar 40 millj. og er áætlaður 60--80 millj. á þessu ári.

Herra forseti. Eins og við vitum hefur innanlandsflug átt í miklum erfiðleikum og þessi skattur var ekki til að bæta það auk þess sem hann leggst mjög skringilega á flugvélar. Í raun og veru skiptir engu máli hvort í flugvélinni sitja 50 farþegar eða enginn farþegi. Þennan flugmiðaskatt Sjálfstfl. ber að greiða. Það var ætlunin þegar flugmiðaskatturinn var lagður á að þetta yrði bara fyrsti áfangi í því að búa til skatt sem átti að lokum að gefa allt að 200 millj. í tekjur til ríkissjóðs. Flugmiðaskatt upp á 200 millj. átti að leggja á þá aðila sem ferðast með flugvélum innan lands. En sem betur fer hefur ríkisstjórnin horfið frá því og engir tilburðir eru um að hækka þennan skatt en það eru heldur engir tilburðir um að taka þennan skatt af eins og lagt var til í frv. sem ég flutti í upphafi þings og hefur legið í samgn. og ekkert verið tekið á. Umsagnir allra aðila sem þar voru töldu þetta mjög ósanngjarna skatta og umsögnin frá flugfélögunum var að ekki væri á bætandi í þeirra rekstrarerfiðleikum.

Þessi flugmiðaskattur átti sem sagt að verða allt í allt 200 millj. vegna þess að hann átti að greiða allan kostnað. Þetta voru kölluð þjónustugjöld hjá sjálfstæðismönnum. Þessi þjónusta við leiðarflug flugvéla var talin kosta 200 millj. kr. á ári og þeir sem nota þjónustuna áttu að greiða fyrir eins fulltrúar Sjálfstfl. sögðu.

Þetta er alveg með ólíkindum, herra forseti. Er ekki komið nóg, hæstv. forseti? Ég held að hv. þm. Sjálfstfl. ættu að fara að sjá að sér og hætta að koma með þessa skatta þó þeir séu ekki mjög háir. Ég hygg að kostnaðurinn við að innheimta þessa skatta sé meiri. Hugsið ykkur t.d. að í hvert skipti sem skotið verður upp flugeldum þarf að borga flugeldaskatt. Ef þingflokki Sjálfstfl. hefði dottið í hug að halda flugeldasýningu á 10 ára valdaafmæli hæstv. forsrh. í þeim stóli, þá hefði þingflokkur Sjálfstfl. þurft að fara að borga skatt til að fá að skjóta flugeldunum upp. Ef menn hefðu ætlað að halda eina flugeldasýningu fyrir hvert ár af valdatímanum þá hefði farið að taka aðeins í en sennilega hefði ekkert munað um það.

Herra forseti. Ég vildi aðeins nefna þessi atriði og vekja athygli á þeim skítasköttum sem verið er að búa til og hefði viljað enda á því að segja að ég held, hæstv. fjmrh., af því að hann er hér í salnum með okkur nú, ég held að það væri full ástæða til að taka upp þá tillögu sem var samþykkt sem ég vitnaði í frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og skoða hana. Ég held að mjög þýðingarmikið væri að skoða sérstaklega hvaða upphæðir á að halda áfram að rukka og hver er kostnaðurinn við það.

Mér dettur aðeins í hug þegar þarf að fá hugbúnaðargerðarmenn inn í ríkisbókhald til að búa til tölvukerfi til að rukka flugeldaskattinn eða brennuskattinn. Ég hygg að tímakaup hjá þeim mönnum gæti verið með öllu sennilega 15--20 þús. kr. og ekki veit ég hvað færi mikill tími í þetta. En í guðanna bænum, hæstv. forseti, hættum við að búa til þessa aukaskatta.