Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 21:43:29 (8202)

2001-05-18 21:43:29# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[21:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að vera við þessa umræðu en ég tel mikilvægt að hann svari nokkrum álitaefnum sem vakna við umfjöllun þessa litla frv. ef svo má segja því að það lætur ekki mikið yfir sér frekar en fyrri daginn. Það er frekar venja en undantekning að hingað til þingsins berist frv. af þessum toga um aukatekjur ríkissjóðs. Yfirleitt eru upphæðirnar það litlar sem um er að tefla þó að stundum komi fyrir að þær séu í hærri kantinum og þær láti ekki mikið yfir sér. En safnast þegar saman kemur og hér hefur fyrri ræðumaður, flokksbróðir minn, hv. þm. Kristján L. Möller, drepið á nokkur tiltekin dæmi sem stinga í augun.

Það er þannig, herra forseti, að þessar svonefndu aukatekjur ríkissjóðs, sem eru færðar undir Ýmsar tekjur í fjárlagafrv. og fjárlögum yfirstandandi árs og umliðinna ára, eru á nokkuð gráu svæði að minni hyggju. Þær eru þarna á milli hinna svonefndu þjónustugjalda sem eru óhjákvæmilega þannig og eru óumdeilt með þeim hætti að það ber að taka gjald samsvarandi raunkostnaði eða því sem næst. Á hinn bóginn lúta skattar öðrum lögmálum en þessar aukatekjur nánast engum og hefur verið rennt í gegnum þingið yfirleitt skömmu fyrir þinghlé við áramót eða að vori.

[21:45]

Svonefndar aukatekjur ríkissjóðs eru núorðið farnar að skipta verulegu máli í tekjuöflun ríkissjóðs og í niðurstöðutölum hans. Erfitt er þó að lesa út úr þessu í fjárlögum. Þarna er að finna gjöld eins og dómsmálagjöld upp á hálfan milljarð og leyfisgjöld, gjöld fyrir einkaleyfi, vörumerki, hönnun o.fl. upp á 100 millj., skoðunarmælingar og eftirlitsgjöld upp á meira en hálfan milljarð, ýmislegt upp á 250 millj., útgáfu skírteina og þinglýsingar upp á 250 millj., önnur neyslu- og leyfisgjöld upp á 53 millj. Með þessari skilgreiningu í fjárlögum eru síðan færð skólagjöld. Ég bið hæstv. landbrh. að leggja við það hlustir. Hér eru talin upp skólagjöld, sömu gjöld og hæstv. ráðherra sem barðist hvað harðast gegn sem óbreyttur þingmaður, en það er önnur saga sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Ég vildi benda á að undir þennan lið eru einnig færð afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Það má velta því fyrir sér hversu skynsamlegt og heppilegt er að færa þessar tekjur ríkissjóðs saman. Ég legg ekki að jöfnu notendagjöld Ríkisútvarpsins og þessi leyfisgjöld sem hér hafa fyrst og fremst verið gerð að umtalsefni. Hér er auðvitað fyrst og síðast um að ræða óbeina skattlagningu eins og margsinnis hefur komið fram.

Ég beindi fyrir einhverjum mánuðum fyrirspurn um það til hæstv. dómsmrh. hvernig tekjum og útgjöldum ríkissjóðs væri háttað varðandi útgáfu ökuskírteina og vegabréfa sem allir landsmenn, a.m.k. komnir til vits og ára, þurfa á að halda og verða að borga fyrir hvað sem tautar og raular. Maður hafði í einfeldni sinni ætlað að ríkissjóður færi ekki sérstakar Krýsuvíkurleiðir til að mjólka almenning með útgáfu slíkra leyfa. Hins vegar er öðru nær því að í ljós kom að með stóraukinni tölvutækni og nýjum aðferðum við útgáfu vegabréfa, sem gerir útgáfu þeirra markvissari og ódýrari, þá er kostnaður almennings miklu meiri en áður var.

Nú er það þannig að það tekur meira en 10 daga að fá vegabréf. Ef einhver ætlar að fá það innan 10 daga þá þarf að borga sérstakt hraðagjald vegna svokallaðrar skyndiútgáfu. Ég endurtek, herra forseti, að það telst skyndiútgáfa af hálfu ríkissjóðs að gefa út vegabréf ef fólk hefur ekki tíma til að bíða í 10 daga. Skyndiútgáfan kostar í kringum 10 þús. kr. en hin venjubundna útgáfa, sem tekur meira en 10 daga, það er undir hælinn lagt hversu langan tíma það tekur, kostar helmingi minna. Þetta minnir mann satt að segja á landpóstinn áður, að það skuli taka stofnanir ríkissjóðs, sem í þessu tilfelli, í vegabréfaútgáfunni, heyra undir marga ráðherra, í sumum tilfellum undir fjmrh., heila 10 daga að afgreiða slíka pappíra. Ég furða mig mjög á því og ég átta mig ekkert á. En það er hin hliðin á þessu máli, þ.e. þjónustan sem upp á er boðið.

En hvað kostar það ríkissjóð að veita þessa þjónustu? Hæstv. dómsmrh. svaraði mér því skýrt og skilmerkilega að ég hygg. Niðurstaðan var sú að tekjur vegna bæði skyndiútgáfu og venjubundinnar útgáfu nema á árinu 1999 í um 150 millj. kr. Kostnaðurinn í kringum þessa útgáfu var í kringum 25 millj. kr. Nettótekjur ríkissjóðs af því að gefa út vegabréf eru 120 millj. kr. Mörg er matarholan. Ég velti því fyrir mér hvort það sé með vitund og vilja hæstv. fjmrh. og stjórnarmeirihlutans að gera vegabréfaútgáfu að tekjulind fyrir ríkissjóð, ekki síst í því ljósi að þjónustan er jafnléleg og raun ber vitni.

En þetta er ekki allt. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að útgáfu ökuskírteina. Það kostar verulega fjármuni fyrir ungt fólk að afla sér ökuskírteinis í fyrsta skipti. Greiða þarf fyrir bílprófið, prófgjald sem er líka aukatekjur ríkissjóðs, svo ég tali ekki um allan almenning sem þarf að endurnýja skírteini sín. Það eru 70 millj. á ári sem renna inn í ríkissjóð vegna útgáfu ökuskírteina. Hver skyldi kostnaðurinn vera af þeirri útgáfu? 15 millj. Nettótekjur ríkissjóðs vegna útgáfu ökuskírteina eru upp á 55 millj. kr. Hún er mörg matarholan. Og það eru sjálfstæðismenn sem fara fyrir þessu máli. (Landbrh.: Þetta eru þjónustugjöld.) Ja, þjónustugjöld. Nei, þetta eru auðvitað engin þjónustugjöld. Í fyrsta lagi er þjónustan slök og síðan er verðlagning þjónustunnar í engu samræmi við útgjöldin, raunkostnaðinn sem er auðvitað eðli þjónustugjalda. Hér er auðvitað um dulbúinn skatt að ræða. Ég bið hæstv. fjmrh. að svara mér því hvort það sé meðvituð ákvörðun hans við gerð fjárlaga, bara varðandi það tvennt sem ég nefni hér til sögunnar sem varðar hvern einasta Íslending, og meðvituð ákvörðun Sjálfstfl. í fjmrn. að skattleggja einstaklinga um 150 millj. nettó vegna útgáfu vegabréfa og ökuskírteina. Ég spyr um það.

Herra forseti. Ég tek líka undir það sem hér hefur verið sagt um mikilvægi þess að menn fái glögga heildarmynd af öllum þessum leyfisgjöldum. Ég hvet til þess að tekið verði á þessum álitamálum sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og fleiri hafa vakið máls á. Það er eftirtektarvert að í umsögn fjmrn. sjálfs með eigin frv. --- sem er út af fyrir sig dálítið sérkennilegt en þannig er það nú bara --- er þess getið sérstaklega að lögfesting frv. um þessar viðbótartekur ætti ekki að hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Nei, því skal ég trúa. En það væri kannski fróðlegra að fá að vita hver áhrifin verða á tekjur ríkissjóðs af þessu tekjuöflunarfrumvarpi. Ég bið hæstv. fjmrh. að íhuga það hvort kontórinn hans, fjárlagaskrifstofan, geti ekki líka gefið í umsögn sinni til kynna, þegar það á við, hvort nýjar tekjur komi inn í ríkissjóð en ekki eingöngu útgjöldin þegar þessi hefðbundnu fylgiskjöl með lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar líta dagsins ljós á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Það þarf svo sem ekki að fara mikið fleiri orðum um þetta. Þau dæmi sem ég hef nefnt segja þessa sögu alla. Við erum á mjög vafasamri braut. Hv. þm. Kristján Möller dró það fram með mjög skeleggum hætti og óþarft að bæta þar við. Hér er á ferðinni í hinn sanni skattaflokkur, Sjálfstfl. Þegar menn líta á bak við þá skrautmynd sem gjarnan er varpað upp, að Sjálfstfl. vilji draga úr ríkisrekstri og sé sá flokkur sem vilji lækka skatta, þá kemur annað í ljós.

Í dag bárust fregnir um allt annað og heldur betur viðurkenning sem sjálfstæðismenn fengu eftir áralanga stjórn á málefnum ríkisins, að aldrei hafi umsvif ríkissjóðs verið jafnmikil og á síðari árum. Það er auðvitað einkunnagjöf sem segir sex. Við bætist síðan þetta litla mál sem í sönnu er miklu stærra í sniðum þegar grannt er skoðað.