Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 21:58:52 (8205)

2001-05-18 21:58:52# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[21:58]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get reyndar prísað mig sælan fyrir að hafa sýnt næga fyrirhyggju í að sækja um vegabréf fyrir fjölskylduna, þannig að við sluppum með lága gjaldið. Mín upplifun var hins vegar sú að aðalkostnaðurinn fólst í þeim tíma og í því stússi sem er í kringum að fara á staðinn og sækja um vegabréfið og fara síðan tvær ferðir. Það dugði t.d. ekki að ég kæmi einn með börnin heldur þurfti frúin að koma með. Þannig varð töluvert umstang í kringum þetta allt saman.

Það sem ég á við með einkavæðingunni er að það er verið að gefa út fjöldamörg skírteini fyrir fólk, t.d. kreditkort og debetkort. Allar þær upplýsingar um fólk sem þurfa að vera til staðar til að hægt sé að gefa út vegabréf liggja t.d. inni í bankakerfinu hjá Reiknistofu bankanna. Ég verð að segja að mér fyndist ekkert óeðlilegt, með skjöl eins og vegabréf, að hægt yrði að sameina þessar útgáfur og gera þetta hagkvæmar. Þannig þyrfti ekki að búa til mikið skrifræðisbákn sem hugsar ekkert um að veita þjónustu í kringum vegabréfaútgáfuna. Ég held að hugsanlega væri hægt að gera þetta þannig að vegabréf séu bara gefin sjálfkrafa út til fólks. Einhvern veginn virðist bönkunum takast að gefa út kreditkort og öll þessi kort og endurnýja þau með reglulegu millibili án þess að fólk fari í langar ferðir og eyði í það miklum tíma að sækja um þau. Þetta er bara hugmynd.