Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 22:17:15 (8209)

2001-05-18 22:17:15# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[22:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg til baka fögnuð minn með það að hæstv. fjmrh. láti svo lítið að koma til fundarins. Ég hélt að hann kæmi ferskur og glaður í bragði eftir að hafa verið fjarri fundarstörfum síðustu daga en því er nú öðru nær. Snakillur og úfinn út í allt og alla. Stundum er erfitt að heyra sannleika hlutanna sagðan hér og vissulega skil ég það að hæstv. ráðherra líði ekkert sérstaklega vel undir því þegar dregnar eru fram helstu staðreyndir mála, að það er orðin sérstök tekjuöflunaraðferð hjá honum og ráðuneyti hans og ríkisstjórn hans að sækja peninga í vasa almennings í landinu með því að gefa út vegabréf og ökuskírteini og þar séu músarholurnar til að sækja fé í ríkissjóð mitt í miðju góðærinu. Ég skil ósköp vel að honum líði ekkert sérlega vel yfir því öllu.

Þær tölur sem ég var að fara með varðandi þá tvo þætti sem lúta að nettótekjum ríkissjóðs upp á 150 millj. kr. vegna leyfisbréfaútgáfu og 55 millj. kr. nettótekjur ríkissjóðs vegna ökuskírteina er að finna í þskj. 245 og ég bið hæstv. ráðherra að leita að því.

Hins vegar var ég að spyrja um hvort hæstv. ráðherra geti svarað mér því, af því að ég náði ekki að lesa það út úr fjárlagafrv., hverjar nettótekjur ríkissjóðs eru í heild vegna frumvarpa sem lögð hafa verið fram um aukatekjur ríkissjóðs. Hvað er ríkissjóður að fá í annan hlut þegar kostnaður vegna þjónustunnar er frá dreginn? Það eru spurningar mínar. Þær upplýsingar hef ég ekki en ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi þær. Ég trúi því.

Herra forseti. Af því að hæstv. ráðherra setti á langa lykkju vegna þess að við værum að leggjast gegn einstökum atriðum eins og það að færa niður kostnað gagnvart öryrkjum þá er það náttúrlega alger útúrsnúningur. Það sem við erum að vekja máls á er málið í heild. Það er hæstv. ráðherra sem er að opna það mál með frv. sínu, er að galopna það mál með síendurteknum frv. á hinu háa Alþingi.