Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 22:19:36 (8210)

2001-05-18 22:19:36# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[22:19]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst til þess að vekja athygli á þeirri stöðu sem þessi tegund tekna ríkissjóðs er í. Lögin um aukatekjur ríkissjóðs og það að þurfi að setja lög um hverja gjaldheimtu sem er til komið vegna þess að þarna var skilgreiningarmunur og lögskýringarmunur á stöðu þess hvað væru skattar og hvað væri þjónustugjald og hvað væri raunveruleg endurgreiðsla fyrir veitta þjónustu eða slíkt. Þetta hefur verið á reiki síðustu árin og er fjarri því að komin sé heildstæð mynd á þennan þátt í bæði ríkisfjármálunum og í þeirri umgjörð sem unnið er eftir.

Ég vil aðeins fagna þeim undirtektum hæstv. ráðherra að vinda sér í að láta skoða framkvæmd þeirrar þáltill. sem vitnað er til í nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. um að láta fara fram endurskoðun og heildstæða úttekt á stöðu þessara mála. Ég hygg að við séum enn að reka okkur á tvísögli í lagafrumvörpum og lögum sem verið er að vinna á Alþingi um þetta mál. Kannski verður aldrei hægt að gera þarna hreint upp og er afar brýnt að á þessu verði tekið heildstæðar.

Ef fer fram sem horfir er verið að leysa þetta eins og bút fyrir bút og stór hluti af texta fjárlagafrv. eða fjárlaga verði þá orðið lög um aukatekjur ríkissjóðs. Ég vil taka þetta fram, herra forseti.

Ekki kemur á óvart að það þurfi að fara í ýmsar leikfimiaðgerðir vegna aðildarinnar að Schengen. Að mínu viti er hörmulegt til þess að vita að í löndum utan Schengen sé almennt orðið þannig að fólk snúi sér ekki lengur til íslenska sendiráðsins, íslenskra konsúla eða annarra ræðismanna sem hafa heimild til þess að veita vegabréfsáritanir heldur skuli þeir leita uppi danska sendiráðið og fá þar úrlausn mála sinna.

Ég hygg, herra forseti, að þetta þyki ekki í fyrsta lagi mikil reisn. Í öðru lagi hygg ég að það muni reynast mörgum flækjufótur að finna þarna fram hvernig á að fá þessa þjónustu. Ég harma hvernig er þarna komið málum og það að Íslendingar hafa ekki eigið sjálfstæði til að semja um gagnkvæmar vegabréfsáritarnir við lönd utan Schengen heldur verða þeir að fara þar eftir þeirra reglum. Ég veit dæmi þess að fólk lenti í vandræðum einmitt í því millibilsástandi sem varð nú á þessum mánuðum vegna þess að þá giltu í rauninni engir ákveðnir gagnkvæmir samningar um vegabréfsáritanir á milli ákveðinna landa vegna þess arna. Mér kemur ekki á óvart þó að það eigi eftir að koma hér og verða títt á borðum þingmanna fleiri og fleiri atriði sem snerta þetta, fleiri og fleiri vandræði sem þarf að kippa í liðinn en mestum vandræðum mun þó fólk lenda í sem er sjálft að finna hvernig það á að finna þennan frumskóg í gegnum Schengen inn í Ísland.

Það að ganga lengra og lenga í að innheimta gjald fyrir hvers konar þjónustu sem íslenskir ríkisborgarar verða að sækja, verða að hafa, annars sem hluta af þegnskyldum sínum og það að vera Íslendingur eins og vegabréfsáritun og vera með vegabréf, það er bara hluti af því að vera íslenskur borgari og er ekki nein frekari röksemd að taka gjald fyrir það en annað sem tilheyrir því að vera íslenskur ríkisborgari.

Herra forseti. Mér finnst mjög umdeilanleg sú stefna að fylla skrifstofubáknið af svona smágjaldtökum. Þarna er verið að leggja upp með ærinn starfa. Fjöldi fólks á að innheimta gjöld hér og þar og alls staðar sem snertir beint tilveru fólks sem íslenskur þegn. Ég held, herra forseti, að við séum þarna á afar hættulegri braut og þess vegna er fyllilega ástæða til að þessi skipan mála sé tekin til heildarendurskoðunar áður en við lendum í því að vera hér með meiri hluta Íslendinga sem eru allir að innheimta aukatekjur fyrir ríkissjóð.