Tollalög

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:10:13 (8213)

2001-05-18 23:10:13# 126. lþ. 128.18 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:10]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins vegna þessara síðustu ummæla og skoðana hv. þm. Það er auðvitað engin skemmtun að hafa tollamál í sínum höndum. En eitt liggur þó fyrir að alþjóðasamningar eru gerðir, GATT-samningar og fleiri samningar. Þar er verið að semja um flæði á landbúnaðarvörum. Ég hygg að það sé svo í flestum löndum að þetta snúi þá að atvinnuveginum sjálfum og á Íslandi er landbrh. sá sem starfar með og ber ábyrgð á íslenskum landbúnaði. Mér finnst því skjóta skökku við að hv. þm. vill færa þá ábyrgð frá landbrh. yfir á fjmrh. sem ég teldi mjög óheppilegt til framtíðar horft því að mikil vegferð er komin í gang í þeim samningum og það hlýtur að vera svo að sú ábyrgð sem Alþingi ætlar landbrh. verður að vera virk því að kannski verður það svo í framtíðinni að eina vörnin til að standast vörur frá löndum sem eru allt öðruvísi en okkar, framleiðslukostnaður miklu lægri, eru auðvitað tollarnir.

Við Íslendingar höfum barist við það að benda á að við höfum gengið lengra og jafnvel verið kaþólskari en páfinn í ýmsu, fellt niður útflutningsuppbætur. Í Evrópu eru útflutningsuppbætur enn við lýði o.s.frv. En ég undra mig á því að hv. þm. telur að fjmrh. eigi að fara með þetta. Það er ekki eftirsóknarvert fyrir neinn. En það er skoðun sem ég get ekki tekið undir því að ábyrgðin verður að vera hjá landbrh. í þessu því að þetta snýr að alþjóðasamningum sem eru mjög að þrengja að íslenskum landbúnaði.