Raforkuver

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:35:52 (8225)

2001-05-18 23:35:52# 126. lþ. 128.49 fundur 722. mál: #A raforkuver# (stækkun Nesjavallavirkjunar) frv. 80/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:35]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem í andsvar vegna þess að enn þá er um útúrsnúninga að ræða. Ég skýrði það mætavel í málflutningi mínum áðan að við erum ekki á móti því að virkja og höfum aldrei verið það. Ég held að ég hafi líka skýrt frá því í innleggi mínu að Reykjavíkurborg er talin þurfa á verulegri orkuaukningu að halda inn á sitt kerfi. Ég geri ráð fyrir því að einhver hluti af þessari framleiðslu fari í þessa aukningu, sem er veruleg, á allra næstu missirum.

Virðulegi forseti. Ég gerði þingheimi líka grein fyrir því að ég teldi, og reyni að beita mínum áhrifum til þess, að Reykjavíkurborg og sveitarfélögin hér ættu vegna þessarar orkuöflunar að gera myndarleg plön um að útrýma innfluttum orkugjöfum til iðnaðar og annars slíks hér á svæðinu. Ég set mig þess vegna ekkert á móti þessari virkjun sem hefur öll lögformleg leyfi og er álitlegur virkjunarkostur. Mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson vera að snúa út úr vegna þess að okkar stefna varðandi stóriðjuna er algerlega klár. Það er ekki sem sagt í okkar valdi t.d. að vilja fella eða leggjast gegn því að Orkuveita Reykjavíkur búi til þetta orkuver vegna þess að á þessari spýtu hangir líka 200 megavatta afl í formi varmaorku. Það er mjög mikil nauðsyn á því á allra næstu mánuðum og missirum að það komi inn á höfuðborgarsvæðið þannig að þetta er ekki einhlítt.

Segja má að rafmagnsframleiðslan sé afgangsstærð eða þá að hitaorkan sé afgangsstærð þannig að hér er um tvíþætt mál að ræða og stöðvun á einu leiðir til stórtjóns á hinu sviðinu. Þetta er tvívirkt.