Raforkuver

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:38:01 (8226)

2001-05-18 23:38:01# 126. lþ. 128.49 fundur 722. mál: #A raforkuver# (stækkun Nesjavallavirkjunar) frv. 80/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:38]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Einvirkt, tvívirkt eða fjölvirkt. Það skiptir mig ekki máli. Ég er ekki viljandi að reyna að snúa út úr máli hv. þm. Það er alveg rétt hjá honum að þessa orku má nýta til hvers sem er. En það liggur alveg ljóst fyrir að hv. þm. veit að það á að nota þessa orku til þess að stækka álver Norðuráls á Grundartanga. Því lýsti hv. þm. yfir í ræðu sinni við 1. umr. málsins. Það endurtók hv. þm. í ræðu sinni áðan þannig að það er tvískinnungur ef hv. þm. er á annan bóginn á móti því að stækka álverið sem hann kallar sjálfur megnandi málmbræðslu en á hinn bóginn er sammála því að afla orku til þess verks.

Ég get ekki litið öðruvísi á en þarna hefði hv. þm. átt að vera alfarið á móti þessu máli ef hann ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur. Hann er sem fulltrúi Vinstri grænna með málinu. Hann er sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vitandi vits að styðja öflun á orku sem á að nota til þess að stækka álverið á Grundartanga. Það eru allmikil tíðindi, herra forseti.