Orð forseta um Samkeppnisstofnun

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 10:06:11 (8260)

2001-05-19 10:06:11# 126. lþ. 129.92 fundur 570#B orð forseta um Samkeppnisstofnun# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[10:06]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að þeir sem kusu hæstv. forseta til starfans muni hafa af því nokkurt angur hvernig hann fer með það embætti, það fyrrum virðulega embætti í sölum Alþingis. Mér finnst það hafa sett nokkuð niður í meðferð hans á því stundum og mér finnst ómögulegt að skilja ummæli hans um Samkeppnisstofnun í gær öðruvísi en sem virðingarleysi við þá stofnun.

Það að hann telji sig hafa einhverja allt aðra skoðun á því hver virðing Alþingis er eða um hvað hún snýst kann að skýra málið. En þá þyrfti þingheimur að fá að vita hvernig þetta álit forseta lítur út í aðalatriðum svo að hann geti áttað sig á því hvort hann treystir sér til þess að kjósa hann til forseta á ný. (Landbrh.: Skemmtilegheitin mega ekki hverfa.)

Ég tek undir það með hæstv. landbrh. að skemmtilegheitin mega ekki hverfa. En það verður að gæta virðingar bæði Alþingis og þeirra stofnana, manna og málefna sem um er rætt í sölum Alþingis og forseta ber að ganga fremstur í því. Ég velti því líka fyrir mér hvort hæstv. iðnrh.- og viðskrn. er kátur með það að stofnun, sem hann hlýtur að bera mjög fyrir brjósti, skuli verða fyrir barðinu á forseta með svo óviðurkvæmilegum hætti. Mér finnst satt að segja að forseti væri maður að meiri að viðurkenna það að honum hafi skotist í brandaranum í gær.