Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:04:52 (8282)

2001-05-19 11:04:52# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman á góðum morgni að hlusta á hv. þm. og hann fer mikinn og er sannfærandi í málrómi alla vega. En staðan í samfélaginu er sú að samstaða mun vera um það í öllum stjórnmálaflokkum að ríkið eigi að hverfa út úr þeim fyrirtækjum sem eru í samkeppnisrekstri og flokkarnir líta kannski á það sem óhjákvæmilegt verkefni. Samkeppnisstofnun segir að ríkisrekstur fari vaxandi í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sjái ekki ærið tækifæri fyrir lífeyrissjóði landsmanna að fjárfesta t.d. í bankakerfinu og Landssímanum. Mér skilst að lífeyrissjóðir landsmanna eigi núna 120 milljarða í fjárfestingum erlendis sem ekki hafa gengið of vel. Lífeyrissjóðirnir eiga 50--100 millj. árlega til fjárfestinga. Er ekki hyggilegt að þegar ríkið hverfur út úr þessum rekstri taki lífeyrissjóðir fólksins við og þessi einkavæðing verði í rauninni fjöldavæðing fólksins til þess að taka þátt í atvinnurekstri og það verði lífeyrissjóðirnir sem taki við þessum miklu þjónustufyrirtækjum samtímans og eignist þau? Ég vil a.m.k. heyra viðhorf hv. þm. og formanns í einum stærsta lífeyrissjóði landsmanna, hvort hann telji ekki að lífeyrissjóðir landsmanna geti þarna spilað stórt hlutverk í framtíðinni.