Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:06:45 (8283)

2001-05-19 11:06:45# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við byrjaðir að kyrja þennan söng. Lífeyrissjóðir fólksins kaupi af fólkinu, fólkið kaupi af fólkinu, fólkið kaupi af sjálfu sér. Ég efast ekkert um að þetta gæti reynst góður fjárfestingarkostur fyrir lífeyrissjóðina og ég gæti vel trúað því að lífeyrissjóðir mundu horfa bæði til banka og einnig til símafyrirtækja vegna þess að þetta eru traustir fjárfestingarkostir. Ég er að horfa til núverandi eigenda sem er þjóðin, almenningur, og ég tel að hagur hennar sé best tryggður með núverandi fyrirkomulagi með því að halda Landssímanum í hennar eign.

Hæstv. landbrh. segir að nú á tímum hugsi menn svo að í samkeppnisrekstri eigi að vera samkeppni og ríkið, opinberir aðilar eigi að draga sig til baka. Nú er það svo að menn eru að færa þar landamærin til. Menn eru t.d. að einkavæða skóla, menn eru að einkavæða elliheimili og menn eru einnig að fara inn á aðra þætti velferðarþjónustunnar. Það þýðir að þar er að myndast samkeppnisrekstur einnig. Nú vil ég beina spurningu til hæstv. landbrh.: Ætlar hann að hörfa undan markaðsöflunum í einu og öllu, á öllum sviðum alls staðar þar sem myndast samkeppnisrekstur? Þar ætlar Framsfl. að flýja af hólmi og afhenda eignir þjóðarinnar og mikilvæga stoð og velferðarþjónustu.