Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:10:33 (8285)

2001-05-19 11:10:33# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég lít framtíðina björtum augum, en ég skal viðurkenna að ég hef nokkrar áhyggjur með þennan mannskap við stjórnvölinn.

Það er alrangt að nauðsynlegt sé vegna alþjóðlegra skuldbindinga að ríki og sveitarfélög hverfi út úr öllum rekstri. En við skulum gá að því hvað við meinum með rekstri vegna þess að rekstur er núna skilgreindur á mun víðtækari hátt en áður var, rekstur í efnahagslífinu. Menn eru núna farnir að einkavæða í stoðþjónustu samfélagsins, í velferðarþjónustunni, í skólakerfinu, í heilbrigðiskerfinu. Hæstv. landbrh. segir að hlutverk ríkisins sé fyrst og fremst að sinna eftirlitsskyldu. En eftirlitsstofnanirnar eru einnig einkavæddar. Rafmagnseftirlit ríkisins var tekið og einkavætt og er nú rekið á miklu óhagkvæmari máta fyrir hönd landsmanna en áður var. Rafmagnseftirliti í landinu hefur stórlega hrakað vegna þess að einnig þar var einkavætt. Það er mikill misskilningur að ekki sé hægt að reka sjálfstæðar stofnanir, þess vegna sjálfseignarstofnanir, án pólitískra afskipta, það er hægt, en sem byggja á öðrum grunni en hlutafélög og önnur fyrirtæki sem hafa það að markmiði eitt fyrst og fremst að skila arði. Þetta er hægt.

Ég ætla að benda hæstv. landbrh. og fulltrúa Framsfl. á að kynna sér málefni rafmagnsframleiðslunnar á Long Island í Bandaríkjunum. Þar ráða hægri sinnaðir repúblikanar ríkjum. Þeir neyddust til að þjóðnýta einkavætt rafmagnsfyrirtæki vegna þess að það skilaði svo lélegri þjónustu og okraði svo á notendum, fyrirtækjum og heimilum að þess var krafist að þetta yrði tekið að nýju í hendur almennings.