Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:13:01 (8286)

2001-05-19 11:13:01# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:13]

Forseti (Halldór Blöndal):

Áður en næsti ræðumaður tekur til máls er óhjákvæmilegt fyrir mig að víkja nokkrum orðum að þeim umræðum sem hér voru í morgun vegna þeirra ummæla sem ég hafði um skýrslu Samkeppnisstofnunar.

Samkvæmt 46. gr. þingskapa geta níu þingmenn óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni og skal henni svarað innan tíu vikna, skýrslan þá prentuð og henni útbýtt meðal þingmanna á fundi. Sú skýrsla sem hér um ræðir er 440 blaðsíður og vannst ekki tími til að ljúka skýrslugerðinni á síðasta þingi. Til þess að þingsköp Alþingis eigi við um skýrslubeiðnina er óhjákvæmilegt að endurtaka skýrslubeiðnina í upphafi nýs þings. Það átti því ekki við að krefja forseta um það að þessari skýrslu yrði útbýtt meðal þingmanna. Að því lutu mín orð.

Í bréfi, sem ég hef í höndum og tel rétt að lesa og er dagsett 18. maí, segir:

,,Hinn 4. okt. 1999 lögu þingmenn Samfylkingarinnar fram beiðni á Alþingi á þskj. 20 þar sem þess var farið á leit að viðskiptaráðherra léti gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja sem starfa á íslenskum markaði. Samkeppnisstofnun hefur í dag afhent mér skýrsluna og hef ég sent öllum alþingismönnum eintak af henni.

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.``

Eins og fram kom í ummælum hv. þm. í dag töldu þeir að hæstv. ráðherra hefði farið rétt að þegar hann lét viðskrn. senda þingmönnum sérstaklega þessa skýrslu en tók ekki þann kostinn að leggja hana fram á Alþingi, enda heyrði skýrslubeiðnin til síðasta þingi. Þau orð standa því sem ég áður sagði að þessi atburðarás, eins og hún hefur orðið um skýrslubeiðnina, blaðamannafund ráðherra og hvenær alþingismenn fá skýrsluna í hendur, varðar ekki virðingu Alþingis heldur samskipti einstakra þingmanna við hæstv. viðskrh.