Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:34:14 (8288)

2001-05-19 11:34:14# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Heldur fundust mér svörin rýr. Ég beindi fjölmörgum spurningum til hæstv. ráðherra sem hann hefur ekki svarað. En látum það vera.

Auðvitað hljóta lífeyrissjóðirnir að þakka umhyggju hæstv. utanrrh. fyrir lífeyrissjóðunum. En þetta eru engu að síður undarleg orð frá sömu aðilum og eru áhugamenn um að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í áhættufjárfestingum í virkjana- og stóriðjudraumum ríkisstjórnarinnar því ég veit ekki betur en þar sé mikill áhugi á því að lífeyrissjóðirnir geri einmitt þetta.

Aðalatriðið er að ná fram markmiðum. Menn mega ekki festast í pólitísku fari. Ég vakti máls á þessu pólitíska fari sem Framsfl. er fastur í, að gera einkavæðingu að sérstöku markmiði sínu. Ég óskaði eftir umræðu um vegna þess að öll þessi einkavæðing og sala á ríkisfyrirtækjum byggir á pólitískri stefnu. Það er vísað í þessa pólitísku stefnu í öllum álitsgerðum sem fylgja frumvörpum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu. Það gerir það líka í þessu frv. þar sem vísað er í stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. og formann Framsfl. nánar út í tímasetninguna á sölu Símans. Hann segir í viðtali ekki alls fyrir löngu að hann telji það skynsamlegt að byrja heldur smátt og sjá síðan hvernig þetta gangi en við munum hins vegar á næstu mánuðum eða missirum ekki selja meiri hlutann í fyrirtækinu. Hvenær stendur til að selja meiri hlutann í fyrirtækinu? Ætla menn bara að sjá til? Á markaðnum hafa menn kvartað yfir því að óvissan skaði fyrirtækið. Ég auglýsi eftir nánari upplýsingum um þetta efni.

Varðandi yfirlýsingar hæstv. samgrh. um að ekki sé æskilegt að selja Símann á eins háu verði og kostur er, þá fundust mér svörin einnig heldur rýr.