Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:36:36 (8289)

2001-05-19 11:36:36# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður ekki upplýst neitt frekar um tímasetningar í þessu efni. Ég held að hv. þm. hljóti að skilja að það er ekki hægt að setja fram nákvæmar dagsetningar í þeim efnum. Það hlýtur að vera skynsamlegt að byrja á þessum 14% sem við höfum talað um. Það tel ég vera að byrja smátt og sjá svo til. Þar verður þó að taka mið af aðstæðum.

Það sem hv. þm. sagði, að því er varðar hugsanlegt álver, þá hlýtur það að vera fagnaðarefni fyrir lífeyrissjóði landsmanna að fá möguleika til að fjárfesta í arðbærum framkvæmdum innan lands. Ég tel að lífeyrissjóðirnir hljóti að gera það ef þeim er umhugað um peninga fólksins sem þeir eru ábyrgðarmenn fyrir. Ég vænti þess að hv. þm. blandi því ekki saman við hugsanlega andstöðu sína hér á þingi við það mál.