Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:37:42 (8290)

2001-05-19 11:37:42# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar fyrir austan eru áhættufjárfestingar á nákvæmlega sama hátt og ríkisstjórnin hefur rómað deCode, sem hæstv. utanrrh. talar nú um að hafi illu heilli hrapað í verði. Ég tek undir það því að margir hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum. Þetta eru áhættufjárfestingar og það er ekkert óeðlilegt að menn ræði þær á Alþingi eins og annars staðar.

Mér finnst slæmt að hæstv. ráðherra geti ekki svarað nánar til um söluna, um dagsetningar. Menn verði að sjá til og taka mið af aðstæðum. Hvaða aðstæðum? Þegar fyrirtækið hefur hrapað í verði til að ná fram markmiðum hæstv. samgrh. um að selja fyrirtækið á gjafaprís eða bíða eftir því að hagstæðari verð fáist fyrir þetta fyrirtæki, hverjar eru aðstæðurnar sem beðið er eftir?