Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:38:45 (8291)

2001-05-19 11:38:45# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki um neina fjárfestingu sem ekki fylgir áhætta. Lífið er almennt áhættusamt. Hins vegar ber að reyna að draga úr þeirri áhættu eins og kostur er með því að dreifa fjárfestingu. Ég held að það hljóti að vera fagnaðarefni fyrir lífeyrissjóði landsmanna að hafa sem mesta og besta möguleika til að taka þátt í atvinnulífi landsmanna og vera með í því í stað þess að fara með peningana út fyrir landsteinana.

Að því er varðar Símann og þær aðstæður sem henta til að selja þá fer það að sjálfsögðu mikið eftir því hvernig gengur með söluna í fyrsta áfanga. Hvernig verður bréfunum tekið, á hvaða verði seljast þau og hvernig mun þetta ganga? Ég held að menn hljóti að meta stöðuna að því loknu.

Ég tel að hv. þm. hljóti að skilja að það er ekki hægt að svara því fyrir fram. Við viljum ekki vera spákaupmenn og enn síður erum við miklir spámenn í þessum efnum. Ég býst við því að hv. þm., sem formaður stjórnar eins stærsta lífeyrissjóðs landsmanna, sé enn þá meiri spámaður um hlutabréf en ég, enda miklu vanari að höndla á þessum markaði. Ég hef ekki komið nálægt því þannig að ég mundi frekar leita eftir ráðleggingum hans í þeim efnum.

Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eru að selja í þessum áföngum en áfangarnir hafa ekki verið tímasettir. En ég á ekki von á að þetta muni taka mjög langan tíma. Við erum ekki að tala um heilan áratug. Við erum kannski að tala um fá ár og kannski styttri tíma. Ég get ekki svarað því betur. Það liggur ekki fyrir.