Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:43:09 (8293)

2001-05-19 11:43:09# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hvort rétt hafi verið að hafa ljósleiðarann í sérstöku fyrirtæki eða ekki, þá hefði Landssíminn væntanlega verið mjög ráðandi á þeim markaði óháð því. Ég tel hins vegar að eins og gengið hefur verið frá hnútunum þá sé tryggt að öll önnur fyrirtæki sem starfa á þessum markaði eigi jafnan aðgang að þessu neti og þetta hafa fyrirtækin sjálf staðfest.

Þegar við hófum umræðuna um sölu Landssímans lá þetta ekki fyrir. Þess vegna hafði ég efasemdir. Ég var ekki einn um það enda höfðu margir aðrir þær efasemdir. Það hefur hins vegar verið brugðist við þessum aðstæðum. Ég vænti þess að það hafi verið staðfest í umfjöllun um málið á Alþingi. Það var jafnframt staðfest í skýrslu nefndar sem fjallaði um þetta mál og komst að þessari niðurstöðu þar sem fulltrúar beggja stjórnarflokkanna áttu aðild. Þegar við sáum fram á að þessum skilyrðum hefði verið fullnægt eða að hægt væri að fullnægja þeim, þá var það ekkert markmið í sjálfu sér að aðskilja þetta algerlega. Það hefði veikt fyrirtækið og einnig var ljóst að það væri tæknilega erfitt. Það hefði verið réttlætanlegt að takast á við þá erfiðleika ef menn hefðu séð fram á að það væri eina leiðin til að ná markmiðunum, þá hefði ég viljað standa á því. Ég tel hins vegar að markmiðunum hafi verið náð og það er aðalatriðið í okkar huga. En til þess að ná þessu fram þurfti að sjálfsögðu opna umræðu um málið og niðurstaðan var mjög góð að mínu mati.