Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:45:22 (8294)

2001-05-19 11:45:22# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:45]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hæstv. utanrrh. séum sammála um markmiðin. Við erum hins vegar ekki sammála um leiðirnar og tíminn einn mun vitaskuld leiða í ljós hvor okkar hefur rétt fyrir sér.

En það breytir ekki því að þegar hæstv. ráðherra talar um aðskilnað á grunnnetinu, þá lít ég svo á að það séu lágmarksaðgerðir. Það hefði þurft að gera miklu meira, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem hefur komið fram í þessari umræðu er þetta: Allir sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar hafa til að mynda sagt: Þetta dugar ekki. Stærsti hluti þeirra sem komu fyrir samgn. taldi æskilegt að þetta yrði aðskilið. Þó ekki væri nema fyrir þær sakir að gerðar eru miklar kröfur til þeirra sem ætla að fara þessa leið, kröfur til þeirra að þeir sýni fram á rökin, sannfæri okkur líkt og formaðurinn, hæstv. ráðherra, var sannfærður á sínum tíma. Það hefur í rauninni verið kallað eftir þessu allan tímann af því að allir sem hafa verið a.m.k. álitnir sérfræðingar á þessu sviði hafa mótmælt þessu að undanskildum óháðum tæknimanni sem einkavæðingarnefnd fékk til sín. Aðrir tæknimenn hafa haldið öðru fram en látum það liggja á milli hluta.

Að því er varðar samkeppnina og fjölda fyrirtækjanna, þá hafa flestir gagnrýnt þetta, allir á sviði samkeppnisréttar og flestir sem komu fyrir samgn. Þess vegna finnst mér ekki í mikið lagt þó að við gerum kröfu til þess að þessi rök séu færð fram. Í nál. meiri hlutans eru aðeins þau rök færð fram að eftirlitsstofnun muni sinna sínu hlutverki. Þeir hafa sagt: Það dugar ekki til þess að halda aftur af markaðsráðandi fyrirtækjum.