Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:49:42 (8296)

2001-05-19 11:49:42# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það sem af er umræðu um frv. sem hér er á dagskrá er að verulegu leyti endurtekning þess sem fór fram við 2. umr. og þess vegna er ekki ástæða til að lengja hana mjög mikið. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um örfá atriði.

Í fyrsta lagi kom fram hjá hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni áðan að allir, ég endurtek, allir sérfræðingar telji að aðskilja eigi netið frá Landssímanum og halda því eftir í eigu ríkisins áður en til sölu komi. Ég tel að hér sé mjög ofmælt að um hafi verið að ræða alla sérfræðinga, það er fjarri lagi. Eins og kemur fram í skýrslu einkavæðingarnefndar kallaði hún til sín mjög marga og í skýrslunni kemur m.a. fram mjög vönduð og ítarleg úttekt prófessors sem fór yfir þetta mál frá tæknilegu sjónarhorni einkum og sér í lagi. Niðurstaða hans var sú að það væri mjög erfitt og tæknilega flókið að aðskilja netið frá og það yrði dýrara fyrir neytendur, því fylgdi mikill kostnaður að halda því úti og sér. Niðurstaðan varð því sú, niðurstaða einkavæðingarnefndarinnar og okkar sem að þessu höfum unnið, að það væri í alla staði mjög óhagstætt að aðskilja netið frá. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram því að nauðsynlegt er að menn vaði ekki í villu hvað það varðar.

Málflutningur hv. þm. Ögmundar Jónassonar er alveg með ólíkindum satt að segja og á köflum mjög á mörkum þess sem maður gerir kröfu til manna í þinginu. (ÖJ: Hvaða fullyrðingar eru það?) Fullyrðingar um að markmið samgrh. sé að selja Símann á gjafaprís. Hvers konar fullyrðingar eru þetta? Verið er að væna menn um þvílíka hluti að það er auðvitað útilokað að sitja undir því og ég vísa þessu algerlega á bug. Hv. þm. vísar til þess sem ég sagði þegar ég var að svara og vitna til þess sem hv. þm. og formaður Samfylkingarinnar sagði að það væri allt of seint fram komið að selja Símann, verðið hefði lækkað. Það var álit hans og þess vegna hefði átt að selja Símann fyrr því að við hefðum fengið miklu hærra verð fyrir hann. Ég var að svara þeirri gagnrýni og vísaði til þess að ekki væri eðlilegt að ríkið hagaði sér eins og spákaupmaður á þessum markaði og leitaði einungis eftir því að koma inn í öldufaldinum og selja almenningi á ef til vill óeðlilega háu verði.

Vinnugangurinn í þessu máli er sá að við höfum verið að undirbúa málið og ég tel að ekki hafi verið neinar forsendur fyrir því að ganga til sölunnar fyrr en nú. Það þurfti þennan undirbúning. Við þurftum að breyta fjarskiptalögum og við þurftum að ganga að margs konar samningum og tryggja þetta mál sem allra best og þess vegna höfum við gefið okkur þennan tíma.

Til þess að halda sem best á hagsmunum ríkisins, eiganda Landssíma Íslands hf., höfum við kallað til sérfræðinga sem meta verðgildi félagsins með það í huga að það sé að sjálfsögðu litið til þess hvaða langtímatekjumöguleikar séu fyrir hendi og eftir þeim reglum sem slík vinna er unnin. Á grundvelli þess mats og þeirra hugmynda um verðlagningu verður gengið til sölu til almennings. Síðan er það markaðurinn sem ræður og þar á meðal þeir sem koma til með að bjóða í Símann, m.a. lífeyrissjóðirnir sem leggja mat á það hvert virði hlutabréfanna í Landssíma Íslands er. Ég er alveg sannfærður um að ráðgjafar og fjárfestar munu ekki líta á stundarhagsmuni þegar þar að kemur heldur líta á virði Símans sem þessa stóra og öfluga fyrirtækis á markaði. Þetta vildi ég segja og vísa algerlega á bug fullyrðingum hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að okkur gangi ekki annað til en gefa eignir ríkisins. Þetta eru furðulegar fullyrðingar og ekki sæmandi hv. þingmönnum.

Hv. þm. hefur ítrekað reynt að gera það tortryggilegt að við höfum staðið í skipulagsbreytingum hjá Íslandspósti og dregið það inn í þessa umræðu til að gera Póst- og fjarskiptastofnun tortryggilega og að sjálfsögðu þann sem hér stendur, samgrh. Vil ég aðeins fara yfir það mál enn og aftur vegna þess að verið er að reyna að koma því inn hjá fólki að verið sé að standa fyrir einhverjum stórfelldum breytingum í póstþjónustunni gegn hagsmunum fólksins og þeirra sem þurfa þessarar þjónustu við. Það sem verið er að gera, af því talað er um Skagafjörðinn, þá er verið að bregðast við mikilli breytingu í póstþjónustunni sem dregist hefur saman o.s.frv. en ekki er verið að loka neinni póstþjónustu svo ég endurtaki það aftur og enn í eyru þessa ágæta þingmanns sem heldur þessu fram. Ekki er verið að loka neinni póstþjónustu. Það er verið að gera breytingar á rekstri og skipulagi og það er í alla staði eðlilegt og ég tel að þegar fram líða stundir muni þessir hv. þm. átta sig á að nauðsynlegt var að gera það sem þar hefur verið gert.

Þegar litið er til fjarskiptamarkaðarins og stöðu Íslands í dag og á þeim tíma þegar við erum að ræða sölu Landssímans þá er hún í stórum dráttum sú að við höfum verið að tileinka okkur tæknina mjög hratt. GSM-símanotkunin hefur vaxið mjög mikið og við erum meðal þeirra þjóða sem mest nota síma og þá ekki síst GSM-símann. Það eru þrjú fyrirtæki komin á markaðinn sem keppa þar. Við Íslendingar notum internetið mjög mikið og við höfum tryggt það með fjarskiptalöggjöfinni að hvert einasta heimili á Íslandi sem hefur fastlínukerfi í dag og í framtíðinni á að geta haft aðgang að internetinu með ISDN-tengingum og það er einsdæmi. Það er einsdæmi í fjarskiptalöggjöf að það sé krafa á hendur símafyrirtækjum að veita slíka þjónustu til allra símnotenda. Það er afar mikilvægt.

Að síðustu vil ég nefna það sem stöðuna hjá okkur í dag á Íslandi að þegar litið er yfir samanburð OECD-ríkjanna um verðlagningu, verðlag á símaþjónustunni þá kemur í ljós að símaþjónustan á Íslandi, bæði fastlínusímanotkunin og GSM-símanotkunin og einnig gagnaflutningar eru með því lægsta sem þekkist og í sumum tilvikum er verðið lægst á Íslandi. Það er afar mikilvægt að menn átti sig á þessu. Þetta er staðreynd sem ekki verður hægt að líta fram hjá og hún er afar mikilvæg í mínum huga þannig að aðstæður á Íslandi þegar kemur að því að selja hlut ríkisins í Landssímanum eru okkur hagstæðar sem neytendum. Ég tel að með þeirri aðferð og þeim undirbúningi sem við höfum viðhaft við sölu Símans sé ekki nokkur ástæða til að ætla annað en að niðurstaðan geti orðið mjög farsæl fyrir íslensku þjóðina.