Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:21:45 (8322)

2001-05-19 14:21:45# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram. Í henni eru mjög miklar upplýsingar og þar koma fram margir mjög athyglisverðir hlutir.

Ég ætla fyrst og fremst að einbeita mér að því sem kemur mér reyndar ekki á óvart en það er hin mikla fákeppni í dagvöruverslun á Íslandi. Í ljós kemur að Baugur er með rétt rúmlega 60% markaðshlutdeild í dagvöruverslun á Íslandi og tveir aðilar, Baugur og Kaupás, eru með um 4/5 af markaðnum í dagvöruverslun.

Ekki alls fyrir löngu var ég á fundi með Samtökum iðnaðarins þar sem kom í ljós að sérstaklega stærsta keðjan, Baugur, pressar mjög niður verð hjá framleiðendum og ef viðkomandi framleiðendur kvarta er þeim bara hent út úr þessum verslunum.

Ég var líka á mjög merkilegum fundi með kartöflubændum í Þykkvabæ ekki alls fyrir löngu. Þá fullyrti einn bóndinn að skilaverð hans fyrir 1 kg af kartöflum væri 39 kr., þ.e. hann fengi 78 kr. fyrir tveggja kílóa poka. Slíkur poki er seldur á 319 kr. ef ég man rétt, t.d. í Nýkaup. Þetta eru ótrúlegar upphæðir. Við hljótum því að velta fyrir okkur hvernig verðmyndun vörunnar er.

Ég tel mjög nauðsynlegt að það komi fram í verðmerkingum hvað ríkið fær, hvað framleiðandinn fær, hvað milliliðirnir fá, hvað seljandinn fær og þá sjáum við í raun og veru hverjir eru í raun og veru vinir neytenda. (Gripið fram í.) Hægt væri að láta þetta koma fram í verðmerkingum. Ég veit til þess að t.d. sums staðar í Frakklandi er þetta gert og ég mundi hvetja mjög til þess að slík lög yrðu sett á Íslandi vegna þeirrar fákeppni er hér ríkir.