Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:25:56 (8324)

2001-05-19 14:25:56# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Undanfarið höfum við rætt ítarlega um kosti og galla einkarekstrar andspænis opinberum rekstri. Ég hef bent á að meginmunurinn liggur í ábyrgðinni, herra forseti, það að ef einkaaðili gerir mistök í rekstri tapar hann eigin fé sínu og dettur jafnvel út úr rekstri. Ekkert slíkt gerist í opinberum rekstri þar sem menn geta haldið áfram lélegum hallarekstri í mörg ár án þess að neitt gerist.

Herra forseti. Skýrsla Samkeppnisstofnunar bendir á að hér á landi eru lítil tengsl á milli eignar og valds, fyrirbæri sem ég hef kallað fé án hirðis. Stjórnendur eiga ekkert í fyrirtækinu og tapa þar af leiðandi ekki ef þeir gera mistök. Skýrslan bendir á að ríki, sveitarfélög, sparisjóðir og ekki síst lífeyrissjóðir eru mjög fyrirferðarmkilir í íslensku atvinnulífi og vaxandi. Það segir okkur að fé án hirðis vex þrátt fyrir tilburði til einkavæðingar.

Inn í skýrsluna vantar samt stærstu fyrirtæki landsins, þ.e. Ríkisspítala, háskólasjúkrahús held ég að heiti, og Háskóla Íslands. Þetta eru stærstu fyrirtæki landsins, þau vantar inn í skýrsluna. (ÖJ: Kirkjan.) Og kirkjan, algjörlega án samkeppni. (KVM: Það er nú í góðu lagi.)

Hv. Alþingi er á þessum dögum að samþykkja miklar einkavæðingar á bönkum og fjarskiptafyrirtækjum. Eftir situr allur orkugeirinn, Landsvirkjun og Rarik, Íbúðalánasjóður, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Við höfum því miður ekki haft undan að einkavæða. Skýrslan er hvatning til að bretta upp ermarnar og selja næst Landsvirkjun.

Þá þurfum við hv. þingmenn að taka okkur tak og auka lýðræðið í lífeyrissjóðunum, auka tengslin milli eigenda lífeyrissjóðanna og stjórna lífeyrissjóðanna þannig að stjórnirnar séu ekki sjálfkjörnar á einhverjum lokuðum fundum.