Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:30:19 (8326)

2001-05-19 14:30:19# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. viðskrh. fyrir prýðileg svör við þeim spurningum sem ég varpaði til hennar.

Hæstv. ráðherra kvaðst þó ekki á þessari stundu geta sagt til að öllu leyti til um þau ráð sem hún teldi nauðsynleg til þess að grípa til og koma í veg fyrir að samþjöppun á markaðnum gæti skaðað hagsmuni neytenda.

Herra forseti. Ég vil þess vegna lýsa því yfir hér að Samfylkingin mun óska eftir því þegar þing kemur saman í haust að þessi skýrsla verði tekin til ítarlegrar umræðu og þá geti hæstv. ráðherra jafnframt í lengra og ítarlegra máli lýst ráðum sínum til þess að grípa á þeim vandamálum sem hún tók undir að væru til staðar.

Herra forseti. Eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði áðan þá er ekki bara blokkamyndun til staðar í atvinnulífinu heldur eru nýjar blokkir að hreiðra um sig m.a. í afþreyingariðnaði. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvernig stæði á því að ekki er tekið á þeim iðnaði. Af hverju er t.d. ekki blokkarinnar í kringum Norðurljós að nokkru getið? Getur verið, herra forseti, að skýringuna megi lesa í eftirfarandi orðum í formálanum, þar sem segir:

,,Í nokkrum tilvikum gætti þó tregðu hjá fyrirtækjum að afhenda gögn. Þessi tregða tafði verkið og ekki reyndist unnt í öllum tilvikum að draga upp eins skýra mynd og stefnt var að.``

Ég er sammála hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að þessi skýrsla er mikilvægt gagn. Það þarf að endurnýja hana reglulega en það þarf að gera hana þannig úr garði að hún gefi jafnan skýra mynd. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki rétt að binda það í lög að fyrirtæki verði að gefa þær upplýsingar sem til þarf.

Herra forseti. Að öðru leyti er niðurstaðan af þessari umræðu sú að alls staðar, á öllum stöðum viðskiptalífsins, er samkeppnin að minnka, fákeppnin að aukast og samþjöppunin að aukast. Og það eru engar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hvernig stendur á því, herra forseti? Vegna þess að þetta gerist í skjóli ríkisstjórnarinnar, fyrst og fremst í skjóli Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna er ekki gripið til neinna aðgerða.