Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:43:51 (8333)

2001-05-19 14:43:51# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þar er ég sammála virðulegum forseta. Okkur er ekki vandara um en öðrum mönnum að vinna vinnuna okkar og gera það af og til á laugardögum. Og það held ég að mörg okkar geri og við séum svo sem ekkert vandari að helgum og helgarfríum en annað fólk. Hitt er annað mál að öllum er fyrir bestu að reyna að hafa eitthvert skipulag á hlutunum. Ég tek undir það að það er heldur ónotalegt að stökkva svona fram og til baka í dagskránni.

Hér var á dagskrá fyrir hádegið umræða um einkavæðingu Landssímans og ég hygg að ég sé þar annar maður á mælendaskrá. Mun það ekki vera rétt, herra forseti? Ég var í salnum að undirbúa þessa fínu ræðu og vissi ekki annað en að það mál kæmi mjög fljótlega á dagskrá aftur. En þá er allt í einu komið yfir í eitthvert allt annað mál sem ég hafði enga ástæðu til að ætla að yrði komið að alveg strax. Síðan segir forseti vor, sem nú situr í stóli, að meginforsetinn sé hér einhvers staðar á lóðinni að leggja línurnar og skipuleggja og að vænta sé tilkynningar um að kannski verði farið í 17. og 18. dagskrármálið.

Herra forseti. Það er ekki svona sem við gerum þetta. Menn setjast niður saman, fara yfir stöðuna og reyna a.m.k. að ná samkomulagi um það sem hægt er að ná samkomulagi um á hverjum tíma. Þó það sé ekkert annað en það hvernig fundahaldinu verður hagað allra næstu klukkutímana, hvaða mál verði tekin fyrir og í hvaða röð þannig að þingmenn hafi lágmarksundirbúningstíma til að skipuleggja störf sín og undirbúa ræður, þá er það þó a.m.k. einhvers virði.

Ég tek undir það, þó að ég sjái ekkert að því að vinna af og til á laugardögum og geri það iðulega sjálfur, og held að það fari fljótlega að vera hyggilegt að fresta fundi og koma svo bara saman aftur á mánudaginn. Mér sýnist alveg augljóst að næg verk sé að vinna hér langt fram eftir næstu viku a.m.k. og er sjálfur alveg undir það búinn að svo verði. Þá fær ríkisstjórnin tíma til að hugsa sig um yfir helgina í málefnum smábátanna. Mér sýnist ekkert veita af ef hún á að reyna að ná áttum í þeim efnum og stjórnarliðið að ná saman.

Ég held því að það þjóni margvíslegum og góðum tilgangi og muni gleðja fjölskyldur okkar ef við sláum botninn í þetta núna svona um kaffileytið og hittumst hér svo aftur á mánudagsmorguninn.