Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:21:07 (8341)

2001-05-19 15:21:07# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt að hvetja hæstv. ráðherra til að skoða heildarmyndina. Þegar maður skoðar heildarmyndina eru þarna hópar sem ekki hagnast á þessu. Þó að hv. þm. segi að frítekjumarkið sé hækkað upp í 55% er hún að tala um að þegar búið er að taka tekjurnar frá þá er það bara frítekjumarkið gagnvart tekjutryggingunni. Sá hópur sem ég hef verið að gera að umtalsefni nær ekki þangað upp vegna þess að hann er með svo lágar tekjur þannig að þetta kemur honum ekki til góða. Ef þetta frítekjumark hefði virkað vegna allra bótaflokkanna hefði það virkilega komið þessum hópi til góða en eins og frv. er í dag er aðeins gert ráð fyrir að þetta gildi um tekjutrygginguna og heimilisuppbótina en ekki aðra bótaflokka. Þess vegna er þarna hópur sem verður út undan. Hann fær ekkert meira svigrúm til að fá hærri tekjur vegna þess að hann nær ekki upp í þetta frítekjumark, hann er með greiðslur undir því. Auðvitað kemur þetta þeim til góða sem eru með hærri tekjur, það er alveg rétt. Þeir eru líka betur settir en þeir sem eru þarna niðri, þeir sem eru fatlaðir og eru á vernduðu vinnustöðunum. Þetta kemur hinum öryrkjunum, sem geta náð sér í meiri tekjur, vissulega til góða og ég hef ekki verið neitt að draga úr því. En þarna er hópur sem ekki fær að njóta þess.

Varðandi launaþróunina þá voru gerðar breytingar á almannatryggingalögunum 1998 þar sem viðmiðuninni var breytt. Þar kom alveg klárlega fram í umræðum um þá lagabreytingu og m.a. í svari frá hæstv. forsrh. að miða ætti við launavísitöluna og það er eina viðmiðið sem við höfum og það hefur ekki verið gert. Það gagnrýna auðvitað þessir hópar, hagsmunahópar bæði aldraðra og öryrkja, og ég gagnrýni það líka því að við sjáum alveg hvernig þeir hafa verið að dragast aftur úr.