Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 16:14:11 (8358)

2001-05-19 16:14:11# 126. lþ. 129.14 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv. 76/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa sem var lagt fram fyrir nokkru síðan hefur tekið miklum breytingum frá því að það var lagt fram enda óskaði hæstv. samgrh., um leið og hann mælti fyrir því, að ákveðnir kaflar þess yrðu felldir út og aðrir kaflar aðlagaðir þeirri aðgerð. Frv. er því talsvert mikið breytt og tekur því fyrst og fremst til farþega- og flutningaskipa, eins og brtt. gerir ráð fyrir, en ekki til fiskiskipa eða annarra skipa.

[16:15]

Hér liggur fyrir nál. ásamt brtt. sem tekur mið af ósk hæstv. samgrh. sem tekin var til greina í meðferð samgn. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn er fyrst og fremst við þá breytingu sem gerð er við 9. gr., þ.e. að í stað orðanna 50 brúttótonn í 2. mgr. komi 65 brúttótonn. Ég tel að þessarar breytingar hafi ekki verið þörf. Tillaga um þessa breytingu kom seint fram í vinnu nefndarinnar og hefði sjálfsagt þurft aðeins meiri tíma til að sjá á henni fleiri hliðar. Annar tilgangur hennar var að tryggja að þeir sem hefðu skipstjórnarréttindi á svipaðri stærð af bátum mundu ekki missa þau við gildistöku laganna. Nú er það svo, herra forseti, að í 9. gr. frv. er skýrt kveðið á um að svo hefði ekki átt að vera.

Ég vitna til þess sem stendur í lokamálsgrein 9. gr., með leyfi forseta:

,,Nú hefur skipstjórnarmaður skírteini til skipstjórnarstarfa samkvæmt brúttórúmlestaviðmiðun á skipi sem vegna breytinga á mælingum skipa mælist stærra en eldra skírteini hans veitti réttindi til eða aðrar hliðstæðar ástæður eru fyrir hendi og er þá heimilt að veita honum skírteini til starfa á sama skipi eða skipi sem eins háttar um að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.``

Í upphafi 9. gr. er þetta jafnframt áréttað, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að gefa út ný skírteini samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim í stað eldri skírteina, enda séu réttindi þeirra skírteinishafa í engu skert.``

Ég tel því að þetta sé í sjálfu sér tryggt og því sé ekki þörf á áðurnefndri breytingu. Ef mönnum þótti ástæða til þess að tryggja þetta enn frekar þá var svo sem sjálfsagt að gera það en breytingin sem þarna er lagt til að gera tekur ekki á því sem á eftir gæti komið, þ.e. ef nýir aðilar koma inn og fá þessi réttindi. Ég gat a.m.k. ekki fundið út hvaða áhrif þessi hækkun á brúttórúmlestafjölda sem lögin ættu að taka tillit til hefðu á menntun, menntunarkröfur og annað sem gera þarf til slíkra réttinda og staðfestra færniskrafna.

Ég tel, herra forseti, að það hefði átt að kanna þetta mun betur og hafa samráð við Sjómannaskólann eða aðra sem þar þekkja til menntunarmála. Þar með hefðu menn gert sér mynd af því hvernig þetta kæmi út í framtíðinni og hvort þá þyrfti að breyta námskrám og annarri umgerð námsins til að uppfylla skilyrðin sem skapast við að hækka mörkin. Mér fannst það ekki hafa komið fram, herra forseti, í störfum nefndarinnar hvort þarna þyrfti að huga betur að.

Ég var sammála þeirri túlkun að tryggja bæri að réttindi þeirra manna sem hefðu þau fyrir yrðu ekki skert og fyllilega öruggt yrði að þau yrðu til staðar eftir setningu laganna. Ég var fyllilega sammála því. Hins vegar fannst mér að ekki ætti að taka á málinu með svo einföldum hætti til framtíðar, heldur þyrftu þessar breytingar að vera í takt við undirbúning, menntun, menntunarkröfur og þjálfun.

Herra forseti. Þetta eru helstu fyrirvarar mínir. Það er ljóst að fleiri mikilvægir málaflokkar sem frv. upphaflega tók til eru ófrágengnir. Þá þarf að taka fyrir í þinginu og vonandi fer sú vinna fram í fullri sátt við hagsmunaaðila þar sem tryggt verður að öllu sé til skila haldið. Þær breytingar og sú lagavinna verður að vera sem vönduðust og fullnægja skilyrðum á sviði menntunar, réttindamála, vinnuumhverfis og öryggismála, svo nokkur atriði séu nefnd.

Ég legg áherslu á, herra forseti, að sú vinna fari í gang og undirbúningur hennar fyrir næsta vetur. Mér finnst mikilvægt að þessi atriði og þessi sjónarmið verði höfð í fyrirrúmi þannig að á næsta vetri geti orðið til vönduð lagasmíð sem uppfylli þær kröfur sem þeir sem hér eiga hlut að máli eru sammála um.