Tóbaksvarnir

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:14:00 (8367)

2001-05-19 17:14:00# 126. lþ. 129.37 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv. 95/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir nál. heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir og mér er það mikið ánægjuefni að vera með á þessu nál. þó að ég geri það með fyrirvara og ég mun gera grein fyrir hvers vegna sá fyrirvari er.

Þær breytingar sem verið er að gera varðandi tóbaksvarnir í landinu með þessum lögum og þeim breytingum sem hér eru lagðar til frá heilbr.- og trn. eru allar til bóta að mínu mati. Verið er að fylgja þeirri sjálfsögðu stefnu að vernda þá sem ekki reykja fyrir tóbaksreyk og þá sérstaklega börn, vernda þau fyrir því að vera í tóbaksreyk og ábyrgð foreldra sérstaklega tekin fram í því tilliti. Þannig að á heildina litið fylgjum við í þessu frv. þróuninni eftir sem er að gerast í kringum okkur og er það vel.

[17:15]

Ég hef flutt hér nokkrum sinnum þáltill. um sérstakt söluleyfi til þess að selja tóbak og nú er það komið inn í þetta frv. og því fagna ég. Sömuleiðis hef ég flutt þáltill. um að taka tóbak út úr neysluvísitölunni svo hægt sé að hækka verð á tóbaki umfram verðhækkanir, en í þessu nál. er einmitt á það bent að þessi leið skuli vera skoðuð svo hægt sé að hækka verð á tóbaki. Mig langar í því sambandi að benda á að ein áhrifaríkasta leiðin til þess að draga úr reykingum, sérstaklega hjá börnum og unglingum, er hátt tóbaksverð, og varðandi áhrif á vísitöluna þá beini ég þeim tilmælum til hæstv. heilbrrh. að hann hækki í eitt skipti og þá bara helst nú hið fyrsta hressilega verð á tóbaki. Það hefur þá áhrif einu sinni inn í vísitöluna og síðan finnum við ekki mikið fyrir því meir. Þetta er a.m.k. möguleiki og bið ég hann um að taka það til greina.

Varðandi þær breytingar sem heilbr.- og trn. leggur til, þ.e. að Vinnueftirlit ríkisins komi að gerð reglugerðar eða sé samráðsaðili við gerð reglugerðar um undanþágur þá göngum við að mínu mati ekki nægilega langt því að Vinnueftirlit ríkisins hefur með vinnuvernd barna og unglinga að gera og vinnuvernd starfsmanna á veitingahúsum. Því tel ég að Vinnueftirlit ríkisins þurfi að koma að undanþáguveitingunum, að Heilbrigðiseftirlitið veiti undanþágurnar en leiti umsagnar Vinnueftirlits ríkisins því að Vinnueftirlit ríkisins kannar líka og skoðar vinnumarkaðinn. Ef verið er að biðja um undanþágu, segjum að það sé verslun sem telur sig ekki geta orðið við þeirri kvöð að hafa eingöngu eldri en 18 ára afgreiðslufólk til þess að selja tóbak, þá mundi Vinnueftirlitið skoða aðstæður, ekki eingöngu innan verslunarinnar heldur líka í nærumhverfinu, þ.e. hvort þarna væri atvinnuleysi eða hvort hugsanlega væri hægt að koma því svo fyrir að þó svo að einhverjir undir 18 ára aldri séu við vinnu þá væri hægt að hafa tóbakið til sölu á afmörkuðum stað þar sem eingöngu fullorðnir afgreiddu. Þeir mundu þá skoða forsendur beiðninnar í víðara samhengi en Heilbrigðiseftirlitið gerir, enda liggur þetta ákvæði á borði Vinnueftirlitsins. Ég vorkenni Vinnueftirlitinu ekkert að koma að þessu. Hugsanlega koma fram töluverðar beiðnir núna í byrjun meðan verslanir og aðrir eru að aðlaga sig þessum lögum. En Vinnueftirlit ríkisins hefur skrifstofur úti um allt land og er alveg fullbúið til þess að taka þátt í þessum aðgerðum með Heilbrigðiseftirlitinu. Og bara svo að það gleymist ekki þá verður að huga að því að báðar þessar stofnanir hafi mannafla og fjárráð til þess að fylgja eftir bæði þessu eftirliti og fleiru sem verið er að koma yfir á stofnanirnar. Því legg ég fram brtt. á sérstöku þingskjali ásamt hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um að Vinnueftirlit ríkisins komi að þessum undanþágubeiðnum og verði þar umsagnaraðili.

Um fanga og fangaklefa er það að segja að því miður reykja einstakir hópar meira en aðrir og svo mun vera með þá sem gerast brotlegir við lögin að þeirra líðan er oft þannig að þetta er fólk sem því miður reykir töluvert. Stór hópur fólks reykir innan fangelsanna og því þarf að huga þar vel að tóbaksvörnum og eins því að hafa umhverfið þannig að þeir sem ekki reykja þurfi ekki að anda að sér tóbaksreyk og að þeir sem reykja geti gert það þannig að þeir verði ekki sjálfum sér og öðrum til ama. Ég lagði til að ekki yrði heimilt að reykja í herbergjunum eða fangaklefunum heldur eingöngu í sérreykherbergjum, en fellst á að þetta sé svona í bili því að eftir sem áður mega vera reykherbergi í fangelsunum og því er mjög auðvelt að hvetja til þess innan fangelsisveggjanna, þ.e. að fangelsisstjórar og starfsmenn og fangar sjálfir temji sér eða láti það verða að meginreglu að nota þessa reykklefa eða reykherbergi og reyki ekki inni á herbergjunum því það er þeim sjálfum fyrir bestu. Eins er loftræsting í fangelsunum ekki á þann veg að hægt sé að tryggja að reykur fari ekki um alla klefa og líka til þeirra sem ekki reykja. Þetta er hægt að taka upp innan fangelsisveggjanna og koma á ákveðnu vinnulagi eða tóbaksvarnastefnu í hverri fangelsisstofnun fyrir sig og ekki síður að hjálpa föngum til þess að hætta að reykja og sjá til þess að þeir fái lyf svo að þeim gangi betur að hætta að reykja.

Herra forseti. Mig langaði til að koma þessu að, þ.e. að hvetja til þess að tóbaksvarnir verði virkar innan fangelsanna því að sannarlega veitir ekki af. Þá er ég sérstaklega að hugsa um fangana sjálfa.

Út af standa svo veitingastaðirnir. Vissulega er til bóta, eins og kemur fram í frv., að meiri hluti veitingastaða skuli vera reyklaus. En það er nú einu sinni svo með andrúmsloftið og loft inni á veitingastöðum að það svífur um allt og innan hvers herbergis og er erfitt að halda því aðgreindu án þess að veggur sé á milli og getur verið ófullnægjandi að koma eingöngu loftræstingu við. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm og fara eftir því sem í raun er að gerast, ekki síst í Bandaríkjunum, þá er nú farin sú leið að reykingar eru hreinlega bannaðar á veitingastöðum eða þá að eingöngu eru leyfðar reykingar í sérherbergjum þannig að veitingasalurinn sjálfur er reyklaus.

Því legg ég ásamt Ástu R. Jóhannesdóttur fram brtt. um veitingastaðina. Ég trúi því að þetta sé það sem koma skal. Við værum ekkert í fararbroddi þó svo að við tækjum þetta upp í okkar lög, því eins og ég sagði er víðast í Bandaríkjunum verið að gera alla veitingastaði algjörlega reyklausa þannig að þeir hafa ekki einu sinni reykherbergi.

Við leggjum því til að í stað þess að 2. efnismgr. 8. gr. orðist svo að meiri hluti veitingarýmis skuli ávallt vera reyklaus þá hljóði hún svo:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar á veitingastöðum, í sérstökum herbergjum, þar sem ekki er framreiddur matur. Auk þess má leyfa reykingar í veitingarými á krám, dansstöðum og næturklúbbum, svo og eftir kl. 23 á þeim skemmtistöðum sem leggja megináherslu á skemmtidagskrá og áfengisveitingar.``

Herra forseti. Ég held að með því að fylgja anda laganna og því sem er að gerast í nágrannalöndunum --- þetta er eitthvað svipað því sem nú er verið að taka upp í Svíþjóð eftir því sem ég hef bestu vitneskju um. Ég held að þeir séu að ganga lengra og ætli að taka upp reykleysi á veitingahúsum, að bannað verði að reykja á veitingahúsum. Ég hef ekki séð það frv. en mér er tjáð að þeir muni ganga nokkuð langt í að banna reykingar á veitingahúsum --- séum við svona rétt að fylgja því sem er að gerast.

Herra forseti. Hér er á dagskrá heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og með samþykkt þessa frv. munum við eiga auðveldara með að vinna samkvæmt þeirri áætlun.