Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:43:18 (8370)

2001-05-19 17:43:18# 126. lþ. 129.39 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál. 34/126, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér um till. til þál. um heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Eins og fram kom í máli framsögumanns nál., hv. þm. Katrínar Fjeldsted, þá skrifa ég undir þetta álit með fyrirvara. Ég tel mikilvægt og gott að setja sér háleit markmið en þau verða að vera raunhæf. Þess vegna vil ég ítreka það sem kemur reyndar fram í nál. að það þarf auknar fjárveitingar til að markmiðin sem sett eru fram í áætluninni náist. Það er ekki aðeins á sumum sviðum heldur tel ég að á flestum sviðum þurfi viðbótarfjárveitingar. Ég er sannfærð um það að þær fjárveitingar munu skila sér aftur til samfélagsins vegna þess að það er mjög kostnaðarsamt að búa ekki vel að heilbrigðiskerfinu og forvörnum sérstaklega.

Varðandi þá áherslu sem lögð er fram hér í forgangsverkefni 2.a í áætluninni þar sem segir að unnið verði að því að jafna mun á heilsufari barna sem tengist þjóðfélagsstöðu foreldra um 25% þá get ég ekki annað en getið þess að það er verulegt áhyggjuefni sem komið hefur fram í rannsóknum sem Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir hefur staðið að á heilsufari barna öryrkja. Í Bretlandi voru gerðar rannsóknir á heilsufari barna þeirra sem búa við verstu kjörin, þ.e. lægst launuðu stéttanna og þeirra sem höfðu úr minnstu að spila. Þar kom fram að börn þessara hópa voru við verri heilsu en önnur börn og við athugun Matthíasar Halldórssonar kemur í ljós að svipað er upp á teningnum hér. Leiða má líkur að því að það sé m.a. vegna bágs fjárhags foreldra sem eiga við heilsubrest að stríða og hafa verið metnir til örorku.

Þetta er atriði sem huga þarf verulega að. Í því tilviki vil ég nefna að það þarf að að bæta kjör foreldra þessara barna, öryrkjanna. Fyrr í dag vorum við einmitt með þingmál til umræðu, um almannatryggingar, þar sem komið var að nokkru leyti til móts við foreldra þessara barna, þ.e. þeirra sem geta stundað vinnu og unnið sér inn einhverjar tekjur. Aftur á móti, eins og ég kom inn á í umræðunni um það mál, þarf að skoða það mál talsvert betur.

Herra forseti. Ég vil einnig nefna, varðandi fækkun slysa sem getið er í þessari heilbrigðisáætlun, að það þarf náttúrlega að standa við umferðaráætlun sem fjallar um hvernig eigi að fækka slysum og svona mætti auðvitað lengi telja.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta en ítreka að fjármunir verða að fylgja til að ná þeim markmiðum sem sett eru. Hugur verður að fylgja máli hjá stjórnvöldum í þeim efnum. Ég styð þessa heilbrigðisáætlun en vildi leggja áherslu á þessa þætti.