Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:51:51 (8372)

2001-05-19 17:51:51# 126. lþ. 129.16 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv. 73/2001, Frsm. meiri hluta ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:51]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta samgn. um frv. til laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila á fund sinn frá félögum bifreiðastjóra, frá ráðuneytum og stofnunum og fjölmargar umsagnir bárust til nefndarinnar.

Með frv. er lagt til að lagaákvæði um skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum og lagaákvæði um vöruflutninga á landi verði felld saman í einn lagabálk. Jafnframt er lagt til að gildissvið laganna nái til vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs en um slíkar bifreiðar gilda nú lög um leigubifreiðar, nr. 61/1995. Fyrir þinginu liggur nú frv. til nýrra laga um leigubifreiðar og er gildissvið þeirra afmarkað í samræmi við þetta frumvarp. Við gerð frv. hefur verið tekið mið af reglum sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu eða eru væntanlegar á því svæði og rúmast innan gildissviðs EES-samningsins.

Í almennum athugasemdum við frv. segir að lögin taki ekki til flutnings á hættulegum efnum þar sem um hann gildi reglugerð nr. 984/2000 sem sett er með stoð í 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 60. gr. og 73. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Samkvæmt ákvæðum frv. skulu vöru- og efnisflutningar í atvinnuskyni almennt vera háðir sérstöku starfsleyfi. Ekki eru rök til að álykta að flutningar á hættulegum farmi séu undanskildir enda engin heimild í umferðarlögum til að setja reglur um sérstök rekstrarleyfi fyrir slíka flutninga, og ekki er kveðið á um slíkt í umræddri reglugerð.

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er til laga um í sérstöku þingskjali og skýrir sig sjálft að því leytinu til.