Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:54:19 (8373)

2001-05-19 17:54:19# 126. lþ. 129.16 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv. 73/2001, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hlutans á þskj. 1411, 634. mál.

Með frv. því sem er til umfjöllunar eru lögð til ný heildarlög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga.

Minni hlutinn gagnrýnir þá gjaldtöku sem fyrirhuguð er með frv. en samkvæmt núgildandi lögum og reglum settum samkvæmt þeim eru innheimtar, samkvæmt upplýsingum frá samgrn., að meðaltali 3--3,5 millj. kr. á ári. Samkvæmt kostnaðarútreikningum samgrn. mun kostnaður Vegagerðarinnar vegna þessa málaflokks nema um 10,8 millj. kr. árlega og er áætlað að innheimta samsvarandi upphæð með nýjum gjöldum, sbr. 13. gr. frv. Minni hlutinn mótmælir þessari auknu skattheimtu. Minni hlutinn bendir á að þessar auknu álögur munu ekki hvað síst bitna á landsbyggðinni og eru til þess fallnar að auka enn þann mismun sem verið hefur á vöruverði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Minni hlutinn treystir sér ekki til að styðja frv. og mun sitja hjá við afgreiðslu þess.

Ásamt mér stendur að þessu nál. hv. þm. Kristján L. Möller.

Það sem við erum fyrst og fremst að vekja eftirtekt á, virðulegi forseti, er sú staðreynd að ætlunin er að breyta fyrirkomulaginu á þann hátt að eigendum fólksflutninga- og vöruflutningabifreiða er ætlað að standa undir öllum kostnaði sem stjórnsýslan hefur af því að sinna þeim. Það sem maður hlýtur að fylgjast mjög náið með er það hvað samgrn. ætlar að skera niður á móti því hér er verið að auka tekjurnar um 6--7 milljónir. Við hljótum því að sjá á móti niðurskurð í samgrn. og það verður fróðlegt að sjá, virðulegi forseti, þegar kemur að fjárlögum, að fylgjast með því hvar skera á niður á móti þegar verið er að leggja auknar álögur á eins og hér er um að ræða.