Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:19:16 (8379)

2001-05-19 18:19:16# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef lagt fram brtt. við hafnaáætlun og raunar brtt. samgn. sem hér liggur frammi. Ég hef gert það ásamt samþingmanni mínum, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Brtt. er afskaplega einföld í sniðum og raunar þekkt frá fyrri þingum. Hún gerir ráð fyrir því að fjárveitingum til hafnargerðar af hálfu ríkisins verði veitt til hafnargerðar í sveitarfélögunum Hafnarfirði annars vegar og Kópavogi hins vegar.

Í gildandi lögum nýtur Reykjavík eingöngu ekki styrkja af ríkisins hálfu til móts við viðkomandi hafnir eða hafnasamlög. Á síðari árum, í tíð þessarar ríkisstjórnar, hefur það hins vegar verið þannig og því verklagi verið beitt af einhverjum ástæðum sem aðrir verða að rekja, að sveitarfélög sunnan höfuðborgarinnar hafa verið afskorin með öllu. Það er raunar eingöngu verið að gera upp fyrri samninga við Hafnarfjörð sem þegar voru fyrirliggjandi og greiða skuld ríkissjóðs við Hafnarfjarðarhöfn.

Því var einhvern tíma haldið fram í umræðu þegar þessi ákvörðun var tekin í tíð þessarar ríkisstjórnar að þarna væri um það að ræða að sömu lögmál ættu að gilda um hafnir sunnan Reykjavíkur og hina stóru landshöfn Reykjavík vegna þess að þessar hafnir væru í samkeppni hverjar við aðra og einnig vegna hins að framlegð Hafnarfjarðarhafnar væri það mikil að það réttlætti ekki styrk af ríkisins hálfu.

Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi. Í fyrra tilvikinu, varðandi samkeppni Reykjavíkurhafnar við aðrar hafnir, þá er því ekki til að dreifa. Reykjavíkurhöfn er safnhöfn og um hana gilda sérstök lögmál. Menn þurfa ekki annað en að skoða reikninga þeirrar hafnar til þess að átta sig á því að hún ber höfuð og herðar yfir aðrar hafnir á landinu.

Þegar hins vegar aðrar sterkar og öflugar hafnir vítt og breitt um landið eru bornar saman og framlegð frá rekstri til framkvæmda er skoðuð þá eru fjölmargar hafnir sem betur fer býsna vel settar. Ég nefni Vestmannaeyjahöfn í því sambandi, af því að ég sé hér fyrir framan mig hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Árna Johnsen. Hún er býsna vel rekin höfn og skilar góðri framlegð þegar rekstur er frá dreginn og hefur haft fjármuni til ráðstöfunar til þess að ráðast í brýnar og mikilvægar hafnarframkvæmdir fyrir eigin atbeina. Akureyrarhöfn mætti setja undir sama hatt. Hér á fyrri árum, sérstaklega þegar hæstv. núv. samgrh. var sveitarstjóri, þá skilaði höfnin í Stykkishólmi líka prýðilegri afkomu, ef ég man rétt. Væntanlega hefur það ekki versnað á síðari árum. Vonandi ekki.

Herra forseti. Ef menn ætla að tína út eina eða tvær hafnir og segja sem svo að þær séu það vel reknar eða þær skili svo miklum hagnaði að þær þurfi ekki á styrk af ríkisins hálfu að halda þá liggur í augum uppi að auðvitað er óhjákvæmilegt annað en að menn horfi með jafnræðisregluna að leiðarljósi á aðrar hafnir á landinu. En ég er hræddur um að ekki sé mikill vilji til þess í þessum sal.

Ég neita með öllu að undirgangast það að með einhverjum geðþótta og skringilegheitum skuli einstakar hafnir í landinu vera teknar út úr og því hafnað að þær njóti eðlilegs mótframlags frá ríkinu um þarfa uppbyggingu í viðkomandi höfnum.

Ég árétta að þetta nýja verklag varð fyrst til undir forustu þáv. hæstv. samgrh., Halldórs Blöndals, og síðan hefur núv. hæstv. samgrh. greinilega fylgt þeim ávana fyrirrennara síns eftir.

Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum mínum með að samgn. hafi ekki lagfært þennan lapsus í tillögu ráðherra og lagað þetta í nefndarstarfinu. Fyrir liggja hvað Hafnarfjarðarhöfn varðar umsóknir árum saman. Þar hefur gífurleg uppbygging átt sér stað, uppfyllingar og ný hafnargerð utan sem innan garða. Rétt er að skoða það dálítið í því samhengi, og það muna vafalaust margir, að ekki fyrir margt löngu voru staðsettar kvíar til skipaviðgerða í Hafnarfjarðarhöfn, raunar tvær frekar en ein, og Hafnarfjarðarhöfn lagði í feikimikinn kostnað til þess að skapa þeim aðstöðu, festa þær niður og njörva. Sá kostnaður skipti tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. Í því samhengi vekur þetta athygli, herra forseti, að hér er sérstaklega gerð tillaga um að leggja verulega fjármuni til sambærilegra hluta í Vestmannaeyjahöfn upp á fleiri hundruð milljónir króna. Ég spyr: Hvar liggur munurinn í þessu tvennu?

Ég vil taka það alveg skýrt fram að ekki er ég að amast við því eitt andartak að Vestmannaeyjahöfn njóti ríkisstyrks varðandi þessa mikilvægu framkvæmd og aðgerð og styð það heils hugar. Ég tel einfaldlega að jafnt verði yfir alla að ganga í þessu efni og að engar forsendur séu til þess og engin lög standi til þess --- það liggur nú alveg í augum uppi --- að mismuna höfnum á landinu með þessum hætti. Í hinu nýja umhverfi jafnræðisins og stjórnfestu og strangari laga og reglna í þessu sambandi efast ég satt að segja um að hið háa Alþingi geti gengið þannig um dyr og ganga. Ég stórefa það, þar sem engin lög standa til þess, að geðþóttaákvarðanir af þessum toga geti staðist þau ákvæði sem við viljum vinna eftir og erum að fela öðrum að vinna eftir.

Þetta vildi ég segja. Tillagan sem hér liggur frammi hvað Hafnarfjörð varðar er fyrst og síðast táknræn. Það sjá menn á tölunum. Þær gætu auðvitað verið helmingi hærri eða helmingi lægri. Hér er fyrst og síðast verið að undirstrika það að við þetta verður ekki unað.

Hvað Kópavog áhrærir þá hefur það verið löng og ströng saga og löng barátta. Menn brostu margir í kampinn á árum og áratugum áður þegar Kópavogsmenn voru að leggja drögin að hafnargerð á sínum tíma og töldu litla þörf á slíku. Margir voru efasemdarmennirnir. En af stað fóru þeir fyrir eigin atbeina og þar hefur risið myndarlegt hafnarmannvirki. Ég fæ ekki betur séð en að eftirspurn eftir hafntengdri starfsemi á fastalandinu og uppfyllingum sem þeir Kópavogsbúar hafa gert þar með miklum myndarbrag sé slík að höfnin hafi sannað tilverurétt sinn svo um munar. Nákvæmlega á sama hátt og ég rakti áðan standa engin efnisleg rök til þess að þessi höfn, sú einasta á öllu landinu frá byrjun, njóti í engu stuðnings og styrks ríkisins með eðlilegu mótframlagi. Engin rök standa til þess.

Á sama hátt og ég nefndi áðan gerir tillagan ráð fyrir táknrænum upphæðum. Ég held að ég muni rétt að það hafi einu sinni gerst í meðförum Alþingis að einhverjir fjármunir hafi verið lagðir í Kópavogshöfn. Sennilega eru 15 eða 20 ár síðan og einhverjir smáaurar. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? Jú, jú, það voru lendingarljós. (Gripið fram í.) Nei, nei. Það var hæstv. þáv. samgrh., Matthías Á. Mathiesen, hygg ég, sem beitti sér fyrir því á þeim tíma. En það er önnur saga og hefur svo sem engin lykiláhrif á þetta. Ég hvet hv. formann samgn. að lesa sér til um þetta. En þetta skiptir nú engu höfuðmáli. Kjarni málsins er sá, og enn frekar undirstrikar það málflutning minn, hafi þetta aldrei gerst, að engin rök standa til þess og engin lög standa til þess. Ég trúi því að Kópavogsbúar muni sækja rétt sinn með einum eða öðrum hætti og ef ekki vill betur þá í gegnum dómstóla. Það kæmi mér ekki á óvart því það eru engin efnisrök, með vísan til jafnræðisreglunnar, að eitt eða tvö sveitarfélög séu tekin innan sviga og skilin þar eftir.

Af þessum ástæðum geri ég þessa brtt. og ég mun fylgjast mjög grannt með. Það er ekki í fyrsta skipti, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, að tillögur af þessum toga hafa verið hér fluttar. Þær hafa verið felldar, því er verr og miður, af núverandi stjórnarmeirihluta og það var auðvitað skráð á spjöld sögunnar. Ekkert síður nú verður fylgst gjörla með því hvernig þingmenn greiða atkvæði sitt um þessa brtt., sýna hug sinn til þessara bæjarfélaga og þeirrar miklu uppbyggingar sem hefur átt sér stað á vettvangi hafnargerðar í þeim báðum. Hafnarfjörður státar af langri sögulegri hefð í hafnsögustarfsemi. Þar hefur verið í gegnum árin, áratugina og aldirnar ein stærsta og öflugasta fiskiskipahöfn landsins. Þar hefur þjónusta við hafnsögustarfsemi breyst í áranna rás, en gegnir enn þá veigamiklu hlutverki í atvinnulífi bæjarfélagsins og raunar stórhöfuðborgarsvæðisins eða Stór-Hafnarfjarðarsvæðisins alls. Kópavogur er að brjóta í blað og er að hefja leikinn. Höfnin þar er ekki gömul, nokkuð á annan áratug hefur liðið frá því að uppbygging hófst þar.

En kjarni málsins er þessi, herra forseti, og ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég get að öðru leyti stutt þessar tillögur til hafnaáætlunar og þær brtt. sem gerðar eru af hálfu nefndarinnar. En ég vil eindregið krefjast þess að jafnræði ríki í þessu sambandi og að rök og lög standi til þeirra ákvarðana og þeirra tillagna sem að baki liggja.