Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:32:35 (8381)

2001-05-19 18:32:35# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það má snúa hlutum á hvolf og gera það með orðum. Ég er ekki með reikninga þessara tveggja hafna, Reykjavíkurhafnar og Hafnarfjarðarhafnar, við hliðina á mér en ef ég man rétt ætli það sé ekki tífaldur munur á umsetningu þeirra þannig að virk samkeppni milli þessara hafna er ekki til staðar. Reykjavíkurhöfn ber ægishjálm yfir allar aðrar hafnir á landinu og það sýnir afkoma hennar og öll umsýsla. Þetta eru ekki gild rök, þessi virka samkeppni er ekki til staðar eins og samgrh. vill vera láta.

Samgrh. heldur því fram að hér sé megináhersla á fiskihafnir. Það kann vel að vera að sú áherslubreyting hafi orðið þó finna megi ýmislegt annað í þessari hafnaáætlun en framkvæmdir við fiskihafnir og gerði ég hér skipaviðgerðir að sérstöku umtalsefni. Ég vil rifja það upp að kvíin á Akureyri var styrkt, að vísu í tíð fyrirrennara hæstv. samgrh., sem hittist nú þannig á að er þingmaður Akureyrar og Norðurlands eystra. Nú á að fara sömu leiðina með þurrkví í Vestmannaeyjum. Það hittist þannig á að formaður samgn. býr þar. En á sama tíma eru tvær kvíar í Hafnarfirði sem engan stuðning hafa fengið. Ég spyr: Hvar liggur jafnræðið í þessu? Hvernig á virk samkeppni á jafnræðisgrundvelli að geta verið á milli þessara aðila? Ég vil varpa þeirri spurningu þráðbeint á hæstv. samgrh. Hann veit auðvitað betur, hafandi verið í forustusveit Hafnasambandsins forðum daga og hann þekkir þetta eins og fingurna á sér og þarf ekki að vera að leggja þetta mál upp með öðrum hætti en það er.