Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:05:53 (8400)

2001-05-19 19:05:53# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð varðandi hafnaáætlun. Mig langar til að lýsa sérstakri ánægju minni með áætlunina varðandi tvær hafnir á Austurlandi.

Í fyrsta lagi, varðandi breytingar á höfninni í Vopnafirði, sem koma í sjálfu sér ekki inn í áætlunina sem hækkaður kostnaðarliður vegna þess að framkvæmdaáætlun hefur verið breytt. Ég vil lýsa því yfir að breytingar sem þar á að gera á höfninni eru mjög til bóta og eiga eftir að gjörbreyta allri aðstöðu þar.

Eins varðandi Seyðisfjörð, þá er dýpkunin á höfninni þar fyrir ferju ekki bara fyrir Seyðfirðinga. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að geta tekið á móti stórri ferju, sem áfram kemur til Seyðisfjarðar eftir að þessar breytingar verða gerðar. Þar á sér stað bæði dýpkun og eins hafnarframkvæmdir.

Ég hefði gjarnan viljað sjá hafnaraðstöðu við Lagarfljót fyrr en hér kemur fram. Ég geri þó í sjálfu sér engar athugasemdir við það. Það hefur mikil áhrif á uppbyggingu fyrir ferðaþjónustuna að hafa Lagarfljótsorminn, eins og við köllum ferjuna á Lagarfljóti. Það er nauðsynlegt að byggja þar myndarlega í kring þannig að hægt sé að halda áfram að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu.

Ég vil einnig minnast á höfnina á Hrauni í Reyðarfirði en þar er lagt fé til hafnar fyrir stóriðju. Herra forseti. Ég vil gera fyrirvara við tímasetninguna og það að þar skuli hvergi koma fram nokkur fyrirvari varðandi byggingu álversins sem höfnin á að þjóna. Ef maður les þessa áætlun þá á að hefja framkvæmdir árið 2002 án þess að það sé bundið því að af byggingu álsvers á Reyðarfirði verði.

Aðvörunarorð mín eru ekki ástæðulaus því að þegar er hafin brúargerð inn í Fljótsdal sem eingöngu tengist þessum fyrirhuguðu stórframkvæmdum. Þetta er brú sem þarf að bera mikinn þunga vegna fyrirhugaðra þungaflutninga en gæti verið fyrir venjulega fólksbíla annars, ætti þetta bara að vera eðlileg samgöngubót inn í Fljótsdal, þ.e. ef ekki kæmi til fyrirhuguð stóriðja. Það voru settir miklir fyrirvarar við að byrja á brúnni inn í Fljótsdal þegar unnið var að matsáætlun. Það er ekki farið eftir því. Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um hvort af þessari stóriðju og stórframkvæmdum verði á Austurlandi. Áður en slík ákvörðun er tekin tel ég að það eigi ekki að fara í svo kostnaðarsamar framkvæmdir sem höfn við Hraun og brú inn í Fljótsdal. Ég tel að það eigi að bíða eftir að ákvörðun sé tekin, ganga frá því og fara síðan í viðhlítandi aðgerðir. Bæði eru þetta dýrar framkvæmdir og lagðir vegir þar sem þeir þurfa ekki að vera.

Herra forseti. Ég vil að þetta komi hér fram. Verði tekin ákvörðun um að reisa álver og fara í þessar stórframkvæmdir þá fylgja því þessi mannvirki og ekkert við því að segja, ef ekki þá er alger óþarfi að setja peninga í þetta.

Varðandi umrædda þurrkví í Vestmannaeyjum þá vil ég taka fram að ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að sett sé upp þurrkví í Vestmannaeyjum. En ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru varðandi það að koma þurrkvínni inn á hafnaáætlun. Ég tel óeðlilegt að gera fyrirvaralaust ráð fyrir svo stórum framkvæmdum inn í áætlun, sérstaklega gagnvart öðrum sem verða að vinna sína heimavinnu, undirbúa málið vel, leggja inn umsóknir og fara í gegnum ákveðið ferli. Það verður að meta það hvort þessi framkvæmd sé arðbær og hvort hún eigi rétt á sér. Það þarf að forgangsraða öllum verkefnunum, í fyrsta lagi með tilliti til þess hversu mikilvæg viðkomandi framkvæmd er í samanburði við aðrar framkvæmdir og láta það falla undir þennan heildarpott, þá heildarupphæð sem við höfum. Mér finnst þetta vanvirðing gagnvart öðrum sem sótt hafa um framlög og verða að hlíta því að fara eftir reglum. Þetta er ekki fyrsta framkvæmdin sem er sett inn á síðustu stundu og þarf því ekki að fylgja sömu reglum og almennt tíðkast.

Ég ætla vona að Vestmanneyingar njóti góðs af og þetta verði til að efla starfsemi í Vestmannaeyjum og styrkja þar byggð. Það má ekki taka orð mín þannig að ég mótmæli þurrkvínni sem slíkri. Ég mótmæli eingöngu vinnubrögðunum sem viðhöfð eru.