Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:18:29 (8403)

2001-05-19 19:18:29# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur nú í tvígang á minna en sólarhring reynt að gera það tortryggilegt, sem er alvanalegt hér, að þegar í hlut á mál sem þingmenn styðja í öllum aðalatriðum en einhver einstök efnisatriði valda því að þeir hafa fyrirvara á um sinn stuðning að þeir láti þess þá getið og það sé gjarnan gert með því að hafa fyrirvara í nál. og greina svo frá því í ræðum að þeir hafi fyrirvara á um stuðning við útfærslu tiltekinna hluta eða eitt einstakt atriði í stóru máli sem þeir að öðru leyti eru tiltölulega sáttir við.

Það kemur mér á óvart ef skortur á þingreynslu veldur því að hv. þm. kannast ekki við þetta, og að hv. þm. skuli hér ítrekað reyna að gera slíkt tortryggilegt. Það vekur líka athygli mína að í bæði skiptin áttu í hlut þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson í gær og nú hv. þm. Jón Bjarnason. Ég vona að það sé ekki svo að formaður Samfylkingarinnar sé sérstaklega að reyna að gera sér leik að því að gera það tortryggilegt að menn gangi frá afstöðu sinni til mála með þessum hætti, sem er alvanalegt, ótal dæmi um, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson væri að afhjúpa mikla vanþekkingu og mikið reynsluleysi í sambandi við frágang mála ef þetta kemur honum á óvart og hann hefur ekki áttað sig á því að þetta er mjög venjulegt.

Hinu trúi ég auðvitað alls ekki upp á hv. þm. að honum gangi eitthvað annað og verra til. Miklu frekar væri það þá stráksskapur sem hv. þm. réði ekki við og þá skal að sjálfsögðu taka það alveg áreitnislaust ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson er í óvenju ríkri þörf fyrir að gera að gamni sínu og hafa hér eitthvað út úr hlutunum í þeim efnum, þá er það út af fyrir sig í góðu lagi og við höfum breið bök til að vera honum til aðstoðar í þeim efnum. En ég ákvað að láta hv. þm. Össur Skarphéðinsson verða varan við það að ég hef tekið eftir þessu.