Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:20:39 (8404)

2001-05-19 19:20:39# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki í hvorum okkar er meiri galsi, mér eða hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Mér finnst það næstum því farsakennt að hv. þm. skuli koma hingað upp bara til þess að láta þingheim vita að hann hafi tekið eftir því að tilteknir þingmenn hafi verið að segja ákveðna hluti í ræðum sínum.

Ég skal að vísu fúslega viðurkenna það að eftir tíu eða ellefu ára dvöl hér á þessum stað er margt sem ég hef ekki lært og margt sem ég hef ekki vitað um. Í þessu tiltekna dæmi finnst mér þetta samt sem áður umhendis að hv. þingmenn Vinstri grænna eru að styðja þingmál, í þessu tilviki hafnaáætlun, í hinu tilvikinu var um að ræða leyfi til raforkuöflunar. Í bæði skiptin tengjast þingmálin því að ráðast á í stóriðju. Látum vera með þetta tiltekna mál þar sem hér er um að ræða eitt lítið þrep í langri áætlun um hafnargerð. Hitt málið, fyrst hv. þm. kemur með það inn í umræðuna, var auðvitað talsvert öðruvísi vegna þess að þá var um það að ræða að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lýsti því beinlínis yfir að hann vissi að það ætti að fá orku úr Nesjavallavirkjun til þess að aðstoða við að stækka álverksmiðju á Grundartanga. Það þótti mér ákaflega merkilegt, svo ekki sé meira sagt, og verð að segja að mér finnst sú afstaða skrýtin. Eins og ég sagði gagnvart hv. þm. Jóni Bjarnasyni og auðvitað mega hv. þm. Vinstri grænna taka það eins og þeir vilja, kannski bara sem vinsamlega ábendingu, að ég hefði í þeirra sporum, miðað við afstöðuna sem þeir hafa til stóriðju, ekki gert þetta svona. Þá hefði ég að sjálfsögðu skilað --- og sérstaklega í málinu sem hér var til umræðu í gær --- séráliti og verið á móti.