Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:22:29 (8405)

2001-05-19 19:22:29# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar olli mér nokkrum vonbrigðum því að mér fannst hún benda til þess að hann hafi ekki verið að gera að gamni sínu og þetta hafi ekki verið græskulaust af hans hálfu heldur alvörutilraun til þess að reyna að gera afstöðu þessara þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs tortryggilega og lesa einhverjar óeðlilegar mótsagnir út úr því hvernig þeir kjósa að setja hér mál sín fram. Í hvorugu tilvikinu tel ég að það sé nokkur minnsta ástæða til þess.

Ég held að við eflum ekki andann hér meðal okkar og bræðralagið í stjórnarandstöðunni með því að fara út í slíkt og allra síst að við forustumennirnir ættum að vera í því. Ég bendi hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á að við höfum ekki verið í því, og hefðu þó verið ærin tilefnin til, hvernig Samfylkingin hefur t.d. birst hér í afstöðu sinni í mörgum málum, verið bæði með og á móti að selja Landssímann og bæði með og á móti að selja bankana og fleira í þeim dúr. Við látum það algjörlega kyrrt liggja, það er mál Samfylkingarinnar að útskýra hvernig hún vill standa að málum og ég tel að við þingmenn Vinstri hreyfingarinanr -- græns framboðs séum líka fullfærir um að gera það í þessum tilvikum. Það er fullkomlega eðlilegt að standa svona að málum þegar í hlut á tiltekin framkvæmd sem tengist öðrum hlutum sem eru umdeildir og við kunnum að vera á móti, eins og álveri og virkjun á Austurlandi. Rísi þau á hinn bóginn þarf auðvitað þessa höfn við Reyðarfjörð og þá kemur hún. Fyrirvarinn tengist einnig því að það sé þá ekki vaðið af stað í þær framkvæmdir fyrr en ljóst er, hvort sem menn voru samþykkir eða ekki samþykkir álverinu, að það sé að rísa. Skilur hv. þm. það ekki að menn gangi þá frá afstöðu sinni með þessum hætti vegna þess að þetta er inni í hafnaáætlun sem að öðru leyti er ágæt samstaða um af okkar hálfu og tekur til tuga framkvæmda ef ekki hundruða á næstu fjórum árum sem allar eru hinar bestu og þörfustu framkvæmdir og þó meira væri?

Þetta liggur algjörlega í hlutarins eðli að menn neita sér ekki um að styðja mál af þessu tagi sem þeir eru í aðalatriðum sáttir við og vilja tryggja framgang, eins og hafnaáætlunina, og gera þá grein fyrir því að þeir hafi fyrirvara gagnvart einstökum atriðum.