Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:25:29 (8407)

2001-05-19 19:25:29# 126. lþ. 129.19 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál. 29/126, Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:25]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, frá samgn.

Tilgangur þáltill. er að hrinda af stað átaki í öryggismálum sjófarenda. Með tillögunni er stefnt að sameiginlegu átaki allra þeirra aðila sem að öryggismálum sjófarenda koma undir forustu Siglingastofnunar. Í samræmi við þetta er stefnt að því að skilgreina hlutverk þeirra sem vinna að öryggismálum sjófarenda og að slysum til sjós fækki um að minnsta kosti þriðjung fram til ársins 2004. Þá skal samgrh. samkvæmt tillögunni leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. apríl ár hvert.

Áætlun sem þessi hefur ekki verið lögð fyrir Alþingi áður. Nefndin telur mikilvægt að unnið sé markvisst að öryggismálum sjófarenda og fagnar því tillögunni í heild.