2001-05-19 19:27:00# 126. lþ. 129.20 fundur 619. mál: #A samningur um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT)# þál. 30/126, Frsm. meiri hluta TIO
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:27]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu breytinga á samningi um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta breytingar á samningi um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT) sem samþykktar voru á þingi aðildarríkja hans í London í apríl 1998 en þær lúta að breytingum á rekstrarformi.

Með breytingum á rekstrarformi INMARSAT er stofnað nýtt fyrirtæki, Inmarsat Ltd., sem mun gefa út til stofnunarinnar sérstakt hlutabréf sem veitir henni neitunarvald gegn ákveðnum tegundum breytinga á samþykktum fyrirtækisins. Við stofnun hins nýja félags fá undirritunaraðilar upphaflegs rekstrarsamnings INMARSAT hlutabréf í fyrirtækinu sem samsvarar fyrri eignarhlut þeirra í stofnuninni. Með hliðsjón af þeirri þörf sem talin er vera fyrir sameiginlegt eftirlit ríkisstjórna verður aðaltilgangur stofnunarinnar að tryggja að fyrirtækið Inmarsat Ltd. uppfylli skyldur sem á því munu hvíla um að veita þjónustu í sambandi við alheims- neyðar- og öryggiskerfi fyrir siglingar og að fyrirtækið fari að ákveðnum grunnreglum. Utanríkisráðherra fer með hagsmuni og umboð íslenskra stjórnvalda innan INMARSAT-stofnunarinnar í samræmi við skuldbindingar sem Ísland hefur tekist á hendur.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nál. meiri hlutans rita Tómas Ingi Olrich, Magnús Stefánsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Jónína Bjartmarz, Rannveig Guðmundsdóttir, með fyrirvara, og Jóhann Ársælsson, með fyrirvara.