Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:36:17 (8412)

2001-05-19 19:36:17# 126. lþ. 129.22 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál. 32/126, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:36]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um till. til þál. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak.

Í nál. segir, með leyfi forseta:

,,Umræða hefur farið vaxandi um að endurskoða beri framkvæmd viðskiptabanns á Írak. Kemur þar margt til. Aðstæður almennings í landinu eru mjög bágar. Þótt heldur hafi horft til hins betra samkvæmt skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna frá í mars sl. á það aðeins við um hluta landsins. Ástandið stendur í stað eða fer versnandi annars staðar. Á sama tíma er upplýst að stjórnvöld í Írak láta verulega fjármuni liggja óhreyfða sem fengist hafa innan ramma verkefnis Sameinuðu þjóðanna ,,olía fyrir matvæli`` og ætlaðir eru til kaupa á mat og lyfjum. Ljóst er einnig að stjórnvöldum í Írak hefur tekist með margvíslegum hætti að veikja þetta verkefni og jafnvel draga sér fé í tengslum við það.

Þau þjóðarbrot sem orðið hafa verst fyrir barðinu á harðstjórn Saddams Husseins, shía-múslimar í Suður-Írak og Kúrdar í Norður-Írak, hafa af því þungar áhyggjur að verði við skiptabanninu aflétt muni ofsóknir Íraksstjórnar á hendur þeim magnast. Eftir að eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna urðu að hverfa frá Írak 1998 er ekkert fylgst með því á vegum samtakanna hvort eða hvernig yfirvöld í Írak virða samþykktir þeirra.

Endurskoðun framkvæmdar viðskiptabanns á Írak er því vandasamt verk. Hún hlýtur að beinast að því að leita leiða til þess að beina aðgerðunum enn frekar að því að koma í veg fyrir að ógnarstjórn Saddams Husseins komi sér upp gereyðingarvopnum og ógni öryggi heimshlutans.

Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að styðja frumkvæði Norðmanna á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að framkvæmd viðskiptabanns á Írak verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að aðgerðir Sameinuðu þjóðanna beinist enn frekar að því að hindra að harðstjórn Saddams Husseins komi sér upp gereyðingarvopnum og ógni öryggi á svæðinu.

Alþingi fagnar stuðningi ríkisstjórnar Íslands við frumkvæði Norðmanna og hvetur hana til að stuðla að áframhaldandi framgangi málsins á alþjóðavettvangi.``

Undir nál. rita Tómas Ingi Olrich, Magnús Stefánsson, Árni Ragnar Árnason, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Rannveig Guðmundsdóttir og Jóhann Ársælsson.

Þetta mál hefur árum saman verið mikið átakamál hér í þingsalnum. Stafar það augljóslega af því annars vegar að undir járnhæl harðstjórans hefur neyð almennings verið mikil í Írak og ekki á hana bætandi, enda hefur það ekki verið tilgangur aðgerða Sameinuðu þjóðanna. Á hinn bóginn hafa svo aðgerðir Sameinuðu þjóðanna beinst gegn einum spilltasta og glæpsamlegasta einræðisstjóra samtímans, einræðisstjóra sem hefur purkunarlaust aukið neyð almennings í þeim tilgangi að draga máttinn úr Sameinuðu þjóðunum og grafa undan samstöðu aðildarríkja öryggisráðsins. Þetta hefur gerst á sama tíma og harðstjórinn reisir sér og sínum glæsihallir.

Hreyfing hefur komist á endurskoðun viðskiptabannsins að frumkvæði Norðmanna innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Utanrrh. hefur lýst yfir eindregnum stuðningi ríkisstjórnar Íslands við viðleitni Norðmanna. Utanrmn. hefur leitast við að ná saman um breytingu á þáltill. þannig að tillögutextinn endurspegli sameiginleg viðhorf nefndarmanna til málsins. Það hefur tekist og vil ég færa meðnefndarmönnum mínum í nefndinni þakkir fyrir þá vinnu, öðrum fremur hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, en við tveir höfum unnið að þessu máli einna mest í nefndinni.