Húsnæðismál

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:50:48 (8416)

2001-05-19 19:50:48# 126. lþ. 129.29 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv. 77/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nokkur orð og ég ætla ekki að tefja neitt með þessari spurningu en vildi nota tækifærið við þessa umræðu og leggja eina fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh. um leið og ég fagna því frv. sem ráðherrann hefur flutt og er komið til lokaafgreiðslu í þinginu.

Nokkuð hefur verið rætt um það í vetur að gera þurfi átak varðandi leiguíbúðir og við þekkjum langa biðlista eftir leiguíbúðum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ráðherra hefur rætt um að grípa þurfi til aðgerða og hefur nefnt í því sambandi svipaðar leiðir og eru í brtt. sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir mælti fyrir og er í tillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt um átak til að auka framboð á leiguhúsnæði. Þessar tillögur má líka finna í skýrslu sem ráðherrann hefur lagt fram sem unnin var m.a. með aðild fulltrúa Alþýðusambandsins, ef ég man rétt, þar sem settar voru fram leiðir, m.a. um það að koma þyrfti til móts við háa vexti á leiguíbúðum annaðhvort með vaxtaendurgreiðslum eða stofnstyrkjum svo og húsaleigubótum sem tryggja að leigukjör fari ekki yfir ákveðið hlutfall af stofnverði íbúðar þannig að leigjendur verði jafnsettir og þeir voru þegar lánskjörin voru 1% af lánum til leiguíbúða.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, þar sem við erum að ljúka þingstörfum, hvað líði þeim efndum um að komið verði á þessum stofnstyrkjum þannig að hægt sé að auka framboð af leiguíbúðum og hvort við megum eiga von á því á næstunni þannig að hægt sé að fara í það átak sem ráðherrann hefur boðað varðandi leiguíbúðir.