Húsnæðismál

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:52:59 (8417)

2001-05-19 19:52:59# 126. lþ. 129.29 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv. 77/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Talandi um biðlista eftir leiguíbúðum þá eru þessir biðlistar ekki nýir. Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, upplýsti fyrir nokkru um biðlista og bar saman biðlistana núna og mig minnir 1992. Biðlistar eftir þriggja herbergja íbúðum hafa styst verulega síðan þá, biðlistar eftir tveggja herbergja íbúðum líka, en þó eru þeir of langir. Ef ég man rétt eru þeir 23 mánuðir eftir tveggja herbergja íbúðum en 12 mánuðir eftir þriggja herbergja eða stærri, sem forseti borgarstjórnar taldi eðlilegan biðtíma, þ.e. eftir stærri íbúðum.

Það er alveg ljóst að það vantar leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar um land. Við höfum gengið frá viljayfirlýsingu sem við undirrituðum fyrir u.þ.b. hálfum mánuði með lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði um sérstakt átak til byggingar leiguíbúða, 600 leiguíbúða á næstu fjórum árum. Einnig gerðum við samkomulag við Búseta um 300 leiguíbúðir. Nú bætast við 500 leiguíbúðir á ári en þar á ofan ætlum við að bæta við 600 á næstu fjórum árum í sérstöku átaki.

Búseti tekur að sér að byggja og reka fyrsta áfangann af þessu, þ.e. 300 íbúðir og það verk er að fara í gang. Borgaryfirvöld leggja til viðeigandi lóðir og við ætlumst til þess að borgaryfirvöld greiði fyrir því bæði að láta lóðir með sanngjörnum kjörum og ef svo er þá hafi þau tilvísunarrétt í einhvern hluta af íbúðum sem þarna koma til með að rísa. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt samkomulag og mjög mikilvægt átak og á von á því að leigumarkaðurinn komist í betra lag við þetta. Jafnframt eru uppi hugmyndir hjá einkafyrirtækjum að fara að byggja og reka leiguíbúðir og ég veit um a.m.k. fjögur fyrirtæki sem eru að hugleiða það að fara að byggja og reka leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Ég á því von á því að þetta færist í betra horf.

Feiknagóður gangur hefur verið í félagslegri uppbygginu húsnæðis síðan Íbúðalánasjóður tók til starfa og búið er að veita mjög mikið af viðbótarlánum til tekjulágra og það eru komnar líklega á þriðja þúsund íbúðir með viðbótarlánum. Sem betur fer virðist fólk ráða við þessi viðbótarlán eða þó lánað sé upp í 90% því að vanskil við Íbúðalánasjóð eru minni en þau hafa verið áður og um síðustu áramót var einungis um 1% lána í vanskilum sem er ágætur árangur.

Varðandi framtíðarfyrirkomulag á vaxtagreiðslum eða félagslegri fyrirgreiðslu til leiguíbúða er ekki komin endanleg niðurstaða í það mál. Það eru viðræður við fjmrn. Ég hef sótt á það að skattur af húsaleigubótum verði felldur niður, það er til umræðu. Hækkun húsaleigubóta er til umræðu svo og stofnstyrkir. Jafnramt er líka til umræðu niðurgreiðsla vaxta sem við höfðum reyndar áhuga á að minnka í áföngum. Vextir til leiguíbúða eru núna 3,9% og ég hef von um að það þurfi ekki að hækka þá í bili og e.t.v. verður sú leið farin að vextirnir verði eitthvað þar í kring til frambúðar og vextir á eldri lánum til leiguíbúða verði ekki hækkaðir.

Í því frv. sem hér er verið að afgreiða er líka opnuð heimild til að sveitarfélög breyti innlausnaríbúðum í leiguíbúðir án þess að greiða upp lánin, þ.e. að stjórn Íbúðalánasjóðs fær heimild til að láta lánin standa út lánstímann. Meðalvextir á þessum lánum eru 1,5% og meðallánstími sem eftir er eru 34 ár, og síðan mundi Íbúðalánasjóður lána á þeim vöxtum sem eru núna, 3,9%, og vonandi áfram það sem á vantar til að ná 50 ára lánstímabilinu. En niðurstaða í endanlegt fyrirkomulag aðstoðarinnar er ekki komin.