Húsnæðismál

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 20:00:12 (8418)

2001-05-19 20:00:12# 126. lþ. 129.29 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv. 77/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[20:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Allt er þetta gott og blessað sem hæstv. ráðherra nefnir og vissulega eru þetta skref í áttina sem ráðherra lýsir hér. En það er alveg ljóst, herra forseti, að það er alveg sama hvort byggðar eru 200 íbúðir, 600 leiguíbúðir, eins og ráðherrann nefnir, eða 1.000 íbúðir, ef leigukjörin eru slík að enginn getur getur staðið undir þeim. Það er fyrst og fremst, eins og við þekkjum, lægst launaða fólkið sem á skjól í þessum leiguíbúðum. Það sem skiptir öllu máli við að stytta biðlistana, eins og ráðherrann nefnir, eru þessir stofnstyrkir og hvort skattur verður felldur niður af húsaleigubótum.

Í skýrslu hæstv. ráðherra kemur fram að greiða þurfi niður sem samsvarar 2--3 millj. á hverja einustu tveggja til þriggja herbergja leiguíbúð sem kostar svona 7--8 millj., til þess að ekki þurfi að hækka leiguna og leigjendur verði jafnsettir eins og þegar vextirnir voru 1%. Það er þetta fyrst og fremst sem skiptir máli. Hæstv. ráðherra nefnir að hann sé í viðræðum við fjmrn. um það mál þannig að málið hefur raunverulega ekki skýrst frá því við ræddum það síðast. Það sem ég var fyrst og fremst að leita eftir við ráðherrann var einmitt hvort við værum nokkuð að sjá til lands í því að þessir stofnstyrkir kæmu eða vaxtaniðurgreiðsla sem samsvaraði því að leigukjör þyrftu ekki að hækka.

Ég spyr hæstv. ráðherra í lokin hvort við megum eiga von á því á næstu vikum að þetta skili sér vegna þess að þetta er það sem fyrst og fremst skiptir máli til þess að við sjáum breytt ástand á leigumarkaðnum.