Menningarverðmæti

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 20:23:21 (8427)

2001-05-19 20:23:21# 126. lþ. 129.33 fundur 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[20:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði bara að fá upplýsingar um það því það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þetta kom til umræðu einmitt þegar þetta frv. var lagt fram og eins líka þjóðminjalögin og safnalögin.

Eins og hv. þm. minntist á eru gripir ekki aðeins í Danmörku heldur líka í Svíþjóð, þ.e. gamla norræna safnið sem aðrar þjóðir, Norðurlandaþjóðir, hafa verið að innheimta til sín aftur. Í Þýskalandi er safn o.s.frv. Að mínu viti hefði því verið ástæða til þess að skoða þetta mál. Það hefði mátt skoða það í tengslum við þessa vinnu. En eins og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir gat um þá gæti þetta verið sjálfstætt mál.

Það er skoðun mín að það eigi formlega að finna þessu máli farveg í löggjöf okkar, ekki síst í tengslum við þennan málaflokk sem hérna er verið að ræða og samþykkja lög um.