Hollustuhættir og mengunarvarnir

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 20:24:52 (8428)

2001-05-19 20:24:52# 126. lþ. 129.44 fundur 602. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (grænt bókhald o.fl.) frv. 87/2001, Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[20:24]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Segja má að vinnuheiti frv. hafi verið grænt bókhald. En í skilgreiningu frv. er svo sagt um græna bókhaldið í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Grænt bókhald er efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.``

Og í 3. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi skv. 5. gr. og nánar greinir í fylgiskjali II með lögum þessum.

Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, þ.m.t. tölulegar upplýsingar um meginnotkun hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og helstu tegundir og magn mengandi efna sem losuð eru í loft, láð eða lög, koma fram í framleiðsluvöru eða falla til sem úrgangur.``

Ég vil enn fremur vitna í frv. til nánari skýringar, til þess að hv. þingmönnum sé betur ljóst hvað hér er á ferðinni. Þar segir m.a. að fyrsta bókhaldsár græns bókhalds skuli vera árið 2003.

Fyrst og fremst er stærri fyrirtækjum og mengandi fyrirtækjum ætlað að taka þetta bókhald upp. Þar vil ég nefna m.a. orkuiðnað þann sem snýr að brennslu jarðefna og notkun slíkra efna, enn fremur vinnslu málma, svo sem álframleiðslu, kísilmálmframleiðslu, kísil- og kísilgúrframleiðslu. Í jarðefnaiðnaði er það sements- og kalkframleiðsla, margvíslegur efnaiðnaður og enn fremur úrgangsstarfsemi, svo sem stöðvar fyrir meðhöndlun, förgun og endurnýtingu spilliefna.

Ég vil vitna í nál. á öðrum stað, með leyfi forseta:

,,Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ráðherra skuli hafa heimild til að veita undanþágu frá færslu græns bókhalds. Telur nefndin rétt að slík undanþáguheimild skuli hafa lagastoð og gerir því tillögu um breytingu þess efnis. Nefndin telur mjög mikilvægt að þátturinn um græna bókhaldið nái fram að ganga þar sem færsla þess er bæði jákvæð fyrir umhverfið og fyrirtækin. Færsla græns bókhalds mun gera rekstraraðilum kleift að fylgjast með helstu umhverfisþáttum starfseminnar. Hún getur auk þess orðið skref í þá átt að fyrirtæki taki upp umhverfisstjórnunarkerfi og í sumum tilvikum leitt til fjárhagslegrar hagræðingar þeirra.

Nefndin telur nauðsynlegt að fleiri starfsgreinum verði gert skylt að færa grænt bókhald sem fyrst og nefnir í því sambandi saltverksmiðjur, útgerð og fiskvinnslu, orkufyrirtæki og hitaveitur á háhitasvæðum.``

Þetta eru meginatriði frv. og telur umhvn. að hér sé um mikið framfaramál að ræða. Enda þótt ekki hafi tekist að fá þær atvinnugreinar sem hér var getið um, svo sem útgerð og fiskvinnslu, til leiks að þessu sinni þá telur nefndin eigi að síður rétt að þetta frv. nái fram að ganga og verði að lögum því að svo mun fara, ef að líkum lætur, að fleiri greinar en hér voru upp taldar komi til starfa með þessum hætti.

Annar þáttur í frv. og alls óskyldur því sem ég hef gert hér að umræðuefni í örstuttu máli er 4. gr. frv. Hún snýr að þeim kröfum sem gerðar eru til heilbrigðisfulltrúa sem starfa við ákveðin skilyrði.

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að vitna til 4. gr. frv., en þar segir m.a.:

,,Starfi að minnsta kosti fimm heilbrigðisfulltrúar á viðkomandi eftirlitssvæði í fullu starfi er heimilt að víkja frá því skilyrði að framkvæmdastjóri hafi réttindi sem heilbrigðisfulltrúi, enda sé hann í fullu starfi sem framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og hafi, auk háskólaprófs, staðgóða þekkingu á heilbrigðiseftirliti.``

Til nánari skýringar vil ég segja hv. þingmönnum frá því að eingöngu er um eitt sveitarfélag að ræða, þ.e. Reykjavík, sem nær þeirri stærð að fimm heilbrigðisfulltrúar séu á eftirlitssvæðinu.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. þetta. Nefndin stendur öll að nál. og gerð er grein fyrir þeirri einu brtt. sem fram er sett í þeim skjölum sem liggja hér frammi.