Lax- og silungsveiði

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 20:34:32 (8432)

2001-05-19 20:34:32# 126. lþ. 129.40 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv. 83/2001, Frsm. meiri hluta HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[20:34]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Það er frá meiri hluta landbn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn ótal manns frá stofnunum og fyrirtækjum og væri mikið mál að lesa það allt saman upp en umsagnir hafa borist frá afar mörgum aðilum. Ég vil sérstaklega nefna að nefndinni barst umsögn frá umhvn. Alþingis eins og áskilið var þegar málið var lagt fram í vetur og við höfum tekið tillit til þeirrar umsagnar hv. umhvn. og slegið ýmsa varnagla í meðferð við 2. umr. þessa máls.

Markmið frv. er að setja skýrari og ítarlegri ákvæði um fiskeldi og hafbeit í IX. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Með frv. er leitast við að setja skýrari reglur um starfsemi fiskeldis og styrkja þau ákvæði laganna sem ætlað er að sporna við aukinni hættu á fisksjúkdómum, óæskilegri blöndun fiskstofna og öðrum vistfræðilegum vandamálum þar sem alltaf fylgir því einhver hætta að eldisfiskur sleppi úr kvíum. Í ljósi þeirrar hættu að eldisfiskur sleppi úr kvíum og valdi tjóni á t.d. villtum laxastofnum ræddi nefndin hvort ástæða væri til að lögfesta sérstaklega strangari bótaábyrgðarreglur en felast í almennum reglum skaðabótaréttarins, t.d. hlutlæga ábyrgð eða sakarlíkindareglu. Meiri hlutinn bendir á að á 122. löggjafarþingi lagði umhverfisráðherra fram frv. til laga um meginreglur umhverfisréttar en frv. náði ekki fram að ganga. Þar var í 1. mgr. 4. gr. að finna svonefnda mengunarbótareglu, PPP-reglu, er felur í sér hlutlæga ábyrgð vegna tiltekinna umhverfistjóna en reglan á sér stoð í 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins. Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að þetta kom svo sterklega til álita hjá okkur í hv. landbn. Greinin kveður m.a. á um að aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skuli vera grundvallaðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Við teljum samt ekki rétt að svo stöddu að lögfesta sérstaklega ábyrgðarreglur í tengslum við efni frumvarpsins en leggjum áherslu á að almenn umhverfisverndarlög verði sett sem samrýmist framangreindri samningsskuldbindingu Íslands skv. 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins.

Helstu breytingar sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi eru skilgreiningar og orðskýringar bættar og það liggur fyrir í breytingartillögum á sérstöku þingskjali. Þar er t.d. að finna skýringar á erfðablöndun, hverjar þær eru, og villtir fiskstofnar. Við fengum ábendingu frá veiðimálastjóra um að skilgreining á villtum laxastofnum væri ekki rétt í núgildandi lögum og leggjum til lagfæringu á því þannig að þeir séu skilgreindir á sambærilegan hátt og villtir fiskstofnar, þ.e. hópur laxa sem hrygnir á sama stað á sama tíma en ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum.

Í öðru lagi er kveðið á um í 1. mgr. 3. gr. frv. að landbrh. veiti rekstrarleyfi til fiskeldis og hafbeitar en meiri hlutinn leggur til að veiting rekstrarleyfis til fiskeldis eða hafbeitar verði áfram í höndum veiðimálastjóra eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Með því er opnuð leið kæruferlis til ráðherra ef ágreiningur er um veitingu sérstakra rekstrarleyfa sem veiðimálastjóri veitir og í framhaldi er auðvitað gerð tillaga um nauðsynlegar breytingar með hliðsjón af þessu. Við teljum eðlilegt að leyfisveitandi leiti ekki einungis umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði stöðvar gefi tilefni til hættu á erfðablöndun heldur jafnframt að umsögnin lúti að hugsanlegum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Við herðum einnig á þeim þætti þar.

Í þriðja lagi er lagt til að fiskeldisnefnd sem er skipuð fulltrúum tveggja ráðuneyta, þ.e. landbrn. og sjútvrn., verði ekki umsagnaraðili við veitingu rekstrarleyfis. Skv. 6. gr. frv. er fiskeldisnefnd meðal annarra landbrh. til aðstoðar um stjórn fiskeldismála og skv. 7. gr. skal hún einnig vera fiskeldisnefnd til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi, bæði á sjó og landi og fara með þau mál sem henni eru falin þar lögum samkvæmt. Því teljum við eðlilegt að fiskeldisnefnd sinni ekki bæði ráðgjöf, stefnumótun og stjórn fiskeldismála og sé auk þess í umsagnarhlutverki um hvort rekstrarleyfi skuli veitt. Með sömu röksemdum teljum við eðlilegt að fiskeldisnefnd verði ekki í umsagnarhlutverki þegar tekin er ákvörðun um hvort takmarka skuli eða banna fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á landsvæðum.

Í fjórða lagi skulu, skv. 3. gr. frv., í umsókn um rekstrarleyfi koma fram upplýsingar um starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til að taka af tvímæli um að ekki sé nægilegt að sýna fram á að sótt hafi verið um starfsleyfi samkvæmt framangreindum lögum. Er lagt til að bætt verði við í þetta frv. að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi fyrr en starfsleyfi hefur verið gefið út.

Í fimmta lagi er lagt til að í gjaldskrá verði ekki um að ræða skattheimtu heldur fyrst og fremst verið að taka gjald fyrir kostnað við útgáfu rekstrarleyfis og meðferð umsóknar. En vegna þess að óljóst er hver sá kostnaður er þykir rétt að ákvörðun um gjald fyrir útgáfu rekstrarleyfis og meðferð umsóknar bíði heildarendurskoðunar sem til stendur að gera á lögum um lax- og silungsveiði.

Í sjötta lagi leggjum við til að ...

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir mikið af ræðu sinni því að það er gert ráð fyrir þingflokksfundum, hvort hann vilji gera hlé á ræðu sinni.)

Framsögumaður á eftir svo sem eins og helming af ræðu sinni.

(Forseti (HBl): Þá er rétt að gera hlé á ræðunni og er umræðu frestað.)