Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:03:33 (8434)

2001-05-19 21:03:33# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það birti upp síðdegis í Reykjavík. Úti er fagurt vorkvöld. Sama verður ekki sagt um niðurstöðuna síðdegis í hv. Alþingi. Hér birti ekki yfir verkunum. Ekki var haldinn fundur í sjútvn. og þar inni fraus tillaga um frestun á kvótasetningu á ýsu, steinbít og ufsa í veiðum smábáta, 6 tonna að stærð og minni sem aðeins er heimilt að veiða með línu eða handfærakrókum.

Það fór eins og ég spáði fyrir þremur sólarhringum að LÍÚ-þjónandi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsóknar mundi ekki fá leyfi hjá lagapöntunarfélagi LÍÚ til þess að afgreiða frestunartillögu um kvótasetningu á ýsu, steinbít og ufsa í veiðikerfi smábátanna. Það skiptir LÍÚ-stórgreifana engu þó að þeir valdi sjávarbyggðunum og fólki sem þar býr og berst fyrir framtíð sinni stórskaða. Það skiptir ríkisstjórn lagapöntunarfélagsins engu þó að enn á ný sé hafin aðför að fólki í sjávarbyggðunum sem reynt hefur að bjarga sér og sínum frá tekju- og atvinnuleysi með því að hefja veiðar á smábátum þegar aflamarkskvóti stórgreifanna og stærri fiskiskipin voru seld burt. Það á að koma böndum á atvinnuframtak smábátasjómanna og hið svokallaða óþolandi veiðifrelsi krókaveiðimanna sem var að skapa að nýju undirstöðu í mörgum minni sjávarbyggðum allt í kringum landið, ekki bara á Vestfjörðum eins og látið hefur verið í veðri vaka af þjónum kvótabraskskerfisins heldur mjög víða út um land. Útfærslan á eyðibyggðastefnu stjórnvalda verður varla skarpari eða skýrar fram sett en hún birtist nú fólkinu í landinu.

Hvar er nú stefnan týnda um að efla framtak einstaklinga og frelsi til athafna? Hvar er nú stefnan um fólk í fyrirrúmi? Hvar er nú sjálfstæðisframsóknin um að sátt verði náð um stjórn fiskveiða?

Hæstv. sjútvrh. talar um að vinna þurfi að því að brottkast minnki við fiskveiðar. Kvótasetning á smábáta mun örugglega valda mjög auknu brottkasti. Allt er því unnið með handarbökum í þessu máli. Það er verið að þvinga sjómenn á smábátum inn í kvótabraskskerfi sem vinnur gegn hagsmunum fólksins í sjávarbyggðunum. Það er verið að gera smábátasjómenn að leiguliðum stórútgerðanna. Það má borga mikið, herra forseti, fyrr það að lagapöntunarfélagið fái nýja arðsama leiguliða, leiguliða sem árvisst geta leigt af þeim stóru ýsuna og steinbítinn út úr stóra kvótabraskskerfinu sem þeir LÍÚ-sægreifarnir veiða hvort sem er ekki sjálfir. Svona verk eru vond eins og nú eru unnin hér í hv. Alþingi, herra forseti. Þetta er dimmt kvöld þrátt fyrir bjarta vornóttina.